Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2013 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Samkomulag um samstarf um neytendavernd undirritað við Kína

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur átt viðræður við kínversk stjónvöld um neytendavernd  og undirritaði hann ásamt  Zhou Bohua, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Kína, samstarfssamning milli ríkjanna þessa efnis í Peking í gær. Fundurinn er í framhaldi af heimsókn aðstoðarráðherra Kína, Wang Dongfeng til Íslands í júlí 2012 en þá ræddu ráðherrarnir mikilvægi neytendaverndar í ljósi vaxandi viðskipta ríkjanna.

Zhou Bohua, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Kína og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifa undir samninginn.
Zhou Bohua, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Kína og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifa undir samninginn.

Viðskipti hafa aukist jafnt og þétt milli Íslands og Kína og fluttu Íslendingar vörur til Kína fyrir um átta milljarða króna árið 2012. Innflutingur frá Kína er um 7% af öllum vöruinnflutningi til Íslands. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði að báðar þjóðir ættu hagsmuna að gæta hvað varðar öryggi vöru og þjónustu í ljósi vaxandi verslunar og samskipta. Lagði innanríkisráðherra áherslu á mikilvægi þess að neytendur geti verið upplýstir um hvaðan vörur koma og treyst því að þær standist öryggis- og gæðakröfur.

Innanríkisráðherra átti einnig fund með flugmálaráðherra Kína ásamt fleiri fulltrúum kínverskra flugmálayfirvalda. Á fundinum vakti Ögmundur Jónasson máls á þeim möguleika að bæta svokölluðum 7. réttindum við núgildandi loftferðasamning, þ.e. að  íslensk flugfélög geti flutt vörur til Kína frá þriðja ríki. Verður viðræðum um þessa tillögu fram haldið á næstunni. Einnig var rætt almennt um samstarf ríkjanna  á þessu málasviði. Í báðum ríkjum hefur flugumferð færst mjög í aukana á síðustu árum og eru líkur á að sá vöxtur haldi áfram. 

Í heimsókn sinni til Kína hefur innanríkisráðherra einnig fundað með yfirvöldum ættleiðingamála en Ísland er eitt sautján ríkja sem Kína hefur samið við um ættleiðingar. Um 170 börn hafa verið ættleitt frá Kína til Íslands síðan samningur ríkjanna var gerður árið 2001. Á fundinum kom fram að samstarf þetta hafi reynst mjög farsælt og standa vonir beggja aðila til að svo verði áfram, með hagsmuni barna að leiðarljósi. Millilandaættleiðingum frá Kína fer hins vegar fækkandi bæði vegna bættra lífskjara í Kína og þar sem ættleiðingar innanlands hafa færst í vöxt.

Fundir halda áfram á morgun og lýkur heimsókninni um hæstu helgi.

Zhou Bohua, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Kína og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifa undir samninginn.
 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum