Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mælti fyrir lagafrumvarpi um ný lög um útlendinga

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til nýrra laga um útlendinga. Er það samið á vegum innanríkisráðuneytisins og felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um útlendinga, nr. 96/2002.

Frumvarpið er samið í kjölfar skýrslu nefndar um málefni útlendinga utan Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES) frá júní 2012, auk úttektar nefndar um meðferð hælisumsókna frá árinu 2009. Fjölmargir aðilar, stofnanir, hagsmunasamtök og mannréttindasamtök, komu að undirbúningi frumvarpsins.

Í ræðu sinni sagði innanríkisráðherra að í frumvarpinu væru lagðar til fjölmargar breytingar, sumar tæknilegs eðlis og fela í sér að styrkja núverandi framkvæmd í sessi eða að sníða af vankanta núgildandi laga en einnig ýmsar veigamiklar breytingar og fjallaði hann um nokkrar þær helstu:

Dvalarleyfi og búsetuleyfi

Í fyrsta lagi er með frumvarpinu leitast við að gera skilyrði dvalarleyfa skýrari og lögð áhersla á að það dvalarleyfi, sem útlendingur sækir um, sé í samræmi við tilgang dvalar hans hér á landi. Með þessu er ætlunin að reyna að leysa ýmis álitamál sem komið hafa upp við framkvæmd gildandi laga á undanförnum árum og leitast við að takmarka og skýra matskennd ákvæði eins og kostur er, þó svo að eftirláta þurfi stjórnvöldum eitthvert svigrúm við mat þar sem aðstæður krefjast.

Hæli/alþjóðleg vernd

Í öðru lagi eru gerðar nokkrar breytingar á þeim kafla laganna sem fjallar um hæli og umsóknir um hæli. Fyrir það fyrsta er lagt til að sú orðanotkun verði lögð af og þess í stað tala um alþjóðlega vernd og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Er þetta í takti við þær breytingar sem eiga sér stað á alþjóðavettvangi og þykir endurspegla betur málaflokkinn en breytir að sinni ekki neinu um inntak verndarinnar eða málsmeðferðina.

Málsmeðferð

Í þriðja lagi eru lagar til breytingar sem er ætlað að tryggja að málsmeðferð verði sem skilvirkust í málum er lúta að alþjóðlegri vernd. Íslensk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd bæði hér heima fyrir og á alþjóðavettvangi fyrir of langan málsmeðferðartíma í málaflokknum. Í þessu samhengi hafa komið fram sjónarmið um að löng málsmeðferð hafi slæm áhrif á umsækjendur um alþjóðlega vernd, bæði líkamleg og andleg. Í frumvarpinu er lagt til það viðmið að meðferð umsóknar um alþjóðlega vernd á stjórnsýslustigi taki að jafnaði ekki lengri tíma en sex mánuði. Tímaramminn er settur fram til viðmiðunar en ljóst að við meðferð flóknari mála getur hann orðið rýmri.

Kærunefnd

Í fjórða lagi er lagt til að sett verði á laggirnar kærunefnd útlendingamála sem fjallar um kærur í málum á grundvelli þessara laga, að undanskildum málum er lúta að brottvísun og frávísun á grundvelli almannahagsmuna, almannaöryggis og skyldra ríkra hagsmuna. Hér er um mikilvægt nýmæli að ræða sem eykur sjálfstæði og óhlutdrægni kærustigsins.

Innleiðing tilskipana

Í fimmta lagi er með frumvarpinu tryggð full innleiðing tilskipunar 2004/38/EB um rétt ríkisborgara ríkja ESB, og fjölskyldna þeirra, til frjálsrar farar og dvalar og innleiðing tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Vek ég sérstaka athygli á því að Ísland er bundið af þessum tilskipunum en þær hafa þegar öðlast gildi og nauðsynlegt er því að þessi ákvæði taki gildi hið fyrsta. Er því lagt til að þessi hluti laganna taki gildi strax við samþykkt.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum