Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Innanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn aðgerðir er lúta að klámi

Innanríkisráðherra kynnti í ríkisstjórn á þriðjudag áform sín er varða klám og dreifingu kláms á Íslandi. Forsögu málsins má rekja til þess að frá 2010 hefur innanríkisráðuneytið (áður dómsmála- og mannréttindaráðuneyti) staðið fyrir umræðu um meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu. Hafa sérfræðingar og fagaðilar ítrekað bent á að klámnotkun hafi færst í aukana hér á landi og að hún hafi bein áhrif á viðhorf ungs fólks til kynlífs og kynfrelsis. Þannig sé hætta á að klám ýti undir kynferðisbrot.

Vegna þessara ábendinga efndi ráðuneytið, ásamt velferðarráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti og í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands, til samráðs um klám þar sem fjallað var um klám út frá lagalegu, heilbrigðislegu og samfélagslegu sjónarhorni og var markmiðið að efna til umræðu um hvert hlutverk stjórnvalda skuli vera varðandi dreifingu, notkun á klámi og um áhrif þess á einstaklinga og samfélag. Unnið var úr þeim umræðum og ábendingum sem fram komu í ferlinu og voru settar fram tillögur sem beint var til ráðuneytanna þriggja hvers um sig.

Innanríkisráðherra hefur nú brugðist við tillögunum sem beint var til hans. Í fyrsta lagi hefur ráðherra falið refsiréttarnefnd að vinna frumvarp til almenna hegningarlaga sem þrengi og skerpi á skilgreiningu kláms og taki í því skyni mið af ákvæði norskra hegningarlaga. Samkvæmt 210. gr. almennra hegningarlaga sætir það m.a. refsingu að birta klám á prenti, sem og að búa til, flytja inn í útbreiðsluskyni, selja, útbýta eða dreifa klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum eða hafa þá opinberlega til sýnis. Í lögum er hins vegar ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu klám.

Í öðru lagi verður settur á laggirnar starfshópur sem fær það hlutverk að kortleggja úrræði lögreglu vegna dreifingar kláms á netinu og gera tillögur að breytingum, einkum með tillit til mikilvægis þess að börn hafi ekki aðgang að grófu efni. Fulltrúi innanríkisráðherra mun leiða starf hópsins en óskað verður eftir tilnefningum frá lögreglunni, ríkissaksóknara og Póst- og fjarskiptastofnun, auk þess sem hópnum verður gert að vinna í nánu samráði við fjarskiptafyrirtæki, fjölmiðlanefnd, réttarfarsnefnd og SAFT.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum