Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Gildistími vegabréfa lengdur

Samþykktar hafa verið á Alþingi lagabreytingar sem snúast um að lengja gildistíma vegabréfa úr fimm árum í tíu. Breytingin á gildistímanum tekur gildi 1. mars og má sjá lögin hér..

Með lögunum er gildistími almennra vegabréfa færður til þess horfs sem var með gildistöku laga nr. 136/1998 og tóku gildi 1. júlí 1999. Tilefni breytingarinnar er að lengja gildistíma almennra vegabréfa, þeirra sem eldri eru en 18 ára, í tíu ár vegna þess að örflögur sem geyma tiltekin lífkenni manna í vegabréfum hafa reynst endingarbetri en talið var að yrði fyrir nokkrum árum. Lífkenni í vegabréfi geta til dæmis verið andlitsmynd viðkomandi, augnmynd, fingraför og undirskrift.

Gildistími vegabréfa barna yngri en 18 ára verður áfram 5 ár en styttri gildistími vegabréfa fyrir börn helgast meðal annars af því að útlit þeirra tekur oft breytingum í æsku.

Í kostnaðarmati fjármála- og efnahagsráðuneytisins með lagafrumvarpinu kemur fram að breytingin hafi í för með sér verulegan sparnað þegar áhrifin eru að fullu komin fram. Áætlað er að um 20 þúsund færri vegabréf verði gefin út sem svarar til um 65 milljóna króna lægri innkaupakostnaðar á ári og til viðbótar gæti ýmiss breytilegur kostnaður lækkað árlega um liðlega þrjár milljónir.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum