Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Framlenging á tímabundinni fjölgun dómara undirbúin

Aðalfundur Dómarafélags Íslands var haldinn í dag og flutti Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarp í upphafi fundar ásamt formanni Lögmannafélags Íslands, Jónasi Þór Guðmundssyni hrl. Hjörtur O. Aðalsteinsson, formaður Dómarafélagsins, setti fundinn og bauð gesti velkomna og sagði meðal annars að opnuð hefði verið vefsíða félagsins.

Innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Dómarafélags Íslands í dag.
Innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Dómarafélags Íslands í dag.

Innanríkisráðherra hóf mál sitt á að segja að mikið hefði mætt á dómskerfi landsins síðustu misseri. Í kjölfar hrunsins hafi verið gripið til ákveðinna ráðstafana og lögum breytt þannig að fjölgað var dómurum í héraði úr 38 í 43 og í Hæstarétti úr 9 í 12. Sagði hann þessa fjölgun hafa verið tímabundna, átt að renna út um næstu áramót og ekki átt að ráða í þær dómarastöður sem losnuðu þar til fjöldi dómara í héraði yrði aftur orðinn 38 og fjöldi dómara í Hæstarétti 9.

,,Dómstólaráð og Hæstiréttur hafa farið þess á leit við ráðuneytið að gripið verði til aðgerða svo áfram verði unnt að leysa úr þeim málum sem lögð eru fyrir dómstólana. Af þessum ástæðum liggja nú fyrir frumvarpsdrög um að framlengt verði til 1. janúar 2014 ákvæði dómstólalaganna um að dómarar í héraði skuli vera 43 en eftir þann tíma verði ekki ráðið í þær dómarastöður sem losna fyrr en dómarar í héraði eru aftur orðnir 38,” sagði ráðherra og kvaðst gera ráð fyrir að frumvarpið yrði kynnt í ríkisstjórn í næstu viku.

Einnig sagði hann það hugmyndina að heimilt verði tímabundið að skipa varadómara í Hæstarétti í einstökum málum þó svo að sæti dómara sé ekki autt.

Í lok ávarpsins minntist Ögmundur Jónasson á millidómstigið. Talsvert hefði verið fjallað um hugsanlega stofnun millidómstigs, nefndir hefðu starfað og skilað tillögum og í haust hefði verið haldinn fundur í innanríkisráðuneytinu um framtíðarfyrirkomulag ákæruvalds og dómstóla. ,,Ég tel góðan stuðning og samstöðu um að koma á millidómstigi, spurning er hvernig því verður komið á, ef til vill í áföngum og er næsta skref í rauninni að vinna að frumvarpsdrögum,” sagði ráðherra að lokum og kvaðst vona að það liti dagsins ljós áður en kjörtímabilinu lyki.

Innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Dómarafélags Íslands í dag.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum