Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2012 Dómsmálaráðuneytið

Baráttudagur gegn einelti í dag

Baráttudagur gegn einelti er í dag, 8. nóvember og er hann haldinn að frumkvæði verkefnastjórnar um aðgerðir gegn einelti. Þjóðin er hvött til að standa saman gegn einelti í samfélaginu, ekki síst í skólum og á vinnustöðum. Allir eru hvattir til að leggja sitt að mörkum til að einelti þrífist ekki í samfélaginu og skólar, samtök og vinnustaðir eru hvattir til að beina sjónum að jákvæðum samskiptum og starfsanda.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir meðal annars í grein sem hann ritar í Fréttablaðið í dag ásamt Helgu Björk Magnúsdóttur Grétudóttur:

,,Ofsóknir, þrálát áreitni, stríðni og ofbeldi. Allt eru þetta orð sem koma upp í tengslum við skilgreiningu orðabókar á hugtakinu einelti. Þessi orð lýsa ekki saklausri háttsemi, þvert á móti, alvarlegu ofbeldi, sem í eðli sínu er niðurbrjótandi. Í því felst að niðurlægja, móðga, særa, mismuna og ógna manneskju ítrekað. Kynferðisleg áreitni fellur hér undir, en einnig andlegt og líkamlegt ofbeldi.”

Í lok greinarinnar segir: ,,Baráttan gegn einelti veltur á okkur öllum. Við getum stöðvað það.”

Í tengslum við daginn eru allir hvattir til að skrifa undir þjóðarsáttmála gegn einelti, sem er aðgengilegur á vefnum gegneinelti.is. Með undirritun sinni skuldbindur fólk sig til að vinna gegn einelti og markmiðið er að fá sem allra flesta til að skrifa undir sáttmálann. Þá er einnig hvatt til þess að unnin verði ýmis verkefni sem kveikja umræður og auka vitund um að enginn skuli sitja hjá í góðum hópi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum