Hoppa yfir valmynd
30. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Óskað umsagnar um drög að reglugerð um bakgrunnsathuganir og fleira

Innanríkisráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um bakgrunnsathuganir, öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar lögreglu. Þeir sem senda vilja ráðuneytinu athugasemdir og ábendingar eru beðnir að gera það eigi síðar en 12. nóvember næstkomandi á netfangið [email protected].

Markmiðið með drögunum er að stuðla að auknu öryggi í starfsemi sem felur í sér aðgang að eða meðhöndlun á viðkvæmum trúnaðarupplýsingum eða gögnum, aðgang að viðkvæmum svæðum eða að vernda aðra þá starfsemi sem krefst trúnaðar að verulegu leyti lögum samkvæmt. Málsmeðferðarreglur draganna taka í hvívetna mið af ákvæðum stjórnsýslulaga með tilliti til réttarstöðu einstaklinga. 

Í drögunum eru sett fram almenn viðmið um það hvað skuli lagt til grundvallar við bakgrunnsathuganir lögreglu, öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar á einstaklingum, fyrirtækjum, aðstöðu, upplýsingakerfum og búnaði. Reglugerðin yrði sett á grundvelli lögreglulaga og tæki til þeirra einstaklinga sem þyrftu að gegna tilteknum trúnaðarstörfum, fyrirtækja og stofnana sem lög kveða á um að þurfi að undirgangast öryggisvottun eða öryggisviðurkenningu. Sem dæmi um lög sem kveða á um heimild til bakgrunnsathugunar af þessum toga eru lög um loftferðir, lög um siglingavernd og lög um fjarskipti. Slíkar lagaheimildir yrðu grundvöllur þess að heimilt væri að framkvæma bakgrunnsskoðanir, öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar á grundvelli reglugerðarinnar. Reglugerðardrögin mynda því almenna umgjörð um það hvernig lögreglan framkvæmir þessar aðgerðir.

Almennt er gengið út frá því í drögunum að ríkislögreglustjóri annist bakgrunnsathuganir og útgáfu öryggisvottana og öryggisviðurkenninga á grundvelli reglugerðarinnar. Ríkislögreglustjóri hefur þó heimild til að fela öðrum lögreglustjóraembættum framkvæmdina í ákveðnum tilvikum. 

Skilyrði þess að heimila bakgrunnsathugun á einstaklingi er að skriflegt samþykki hans liggi fyrir. Heimilt er að skoða feril viðkomandi einstaklings a.m.k. 5 ár aftur í tímann frá því umsókn berst lögreglu. Gera má ráð fyrir því að skoðun verði ítarlegri eftir því sem aðgangsheimildir og trúnaðarskyldur einstaklinga eða öryggisstig starfs hækkar. 

Í drögunum er að finna viðmiðanir um það hvaðan lögregla getur sótt upplýsingar, hvaða efnisleg atriði þurfi að skoða og hvernig leggja eigi mat á það hvort veita eigi einstaklingi öryggisvottun. Þá er einnig tekið á því hafi einstaklingur gerst brotlegur við lög og hvernig farið skuli með mat á afbrotaferli við ákvörðun um það hvort veita eigi viðkomandi öryggisvottun eða ekki. Standi til að synja einstaklingi um útgáfu á öryggisvottun ber lögreglu að tilkynna einstaklingi um fyrirhugaða synjun, veita honum kost á að andmæla og óska rökstuðnings auk þess sem geta þarf kæruleiða, komi til synjunar á útgáfu öryggisvottunar. 

Lögreglu er heimilt samkvæmt drögunum að skrá í málaskrá lögreglu að viðkomandi einstaklingur hafi hlotið öryggisvottun svo unnt sé að afturkalla útgefna öryggisvottun, gerist tilefni til þess, enda þá mögulega brostnar forsendur fyrir útgáfu viðkomandi öryggisvottunar.

Drögin kveða jafnframt á um heimild til handa ríkislögreglustjóra að framkvæma öryggisvottanir fyrirtækja, öryggisviðurkenningar aðstöðu, upplýsingakerfis og búnaðar. Almenna viðmiðið þar er að uppfyllt séu skilyrði um lágmarks öryggi samkvæmt viðurkenndum stöðlum eða kröfum sem um viðkomandi stofnun eða fyrirtæki gilda og að mati ríkislögreglustjóra. Öryggisvottun eða öryggisviðurkenning samkvæmt slíkum viðmiðum skal ekki gefin út sé uppi réttmætur efi um öryggishæfi fyrirtækis, stofnunar eða viðkomandi starfsmanna. 

Þá er lögð tilkynningarskylda á einstaklinga, framkvæmdastjóra fyrirtækja og forstöðumenn stofnana sem hlotið hafa öryggisvottun eða öryggisviðurkenningu að upplýsa ríkislögreglustjóra um hvert það málefni sem kann að hafa áhrif á gildi útgefinnar öryggisvottunar. 

Komi til þess að afturkalla þurfi útgefna öryggisvottun einstaklings er lögreglu skylt að fara að málsmeðferðarreglum stjórnslýslulaga, upplýsa einstakling um fyrirhugaða afturköllun, veita andmælarétt, rökstuðning og leiðbeina um kæruheimild. 

Ríkislögreglustjóra er í drögunum falin heimild til að framkvæma öryggisúttektir á svæðum fyrirtækja og stofnana til að framfylgja ákvæðum reglugerðarinnar á grundvalli laga og reglugerða á viðkomandi sviðum. Sé tilefni til athugasemda af hálfu ríkislögreglustjóra í kjölfar úttektar sendir embættið frá sér athugasemdaskýrslu, veitir frest til úrbóta og andmæla en getur afturkallað útgáfu öryggisvottunar eða öryggisviðurkenningar gerist tilefni til þess og ef nægar skýringar eða úrbætur láta á sér standa. 

Óskað er eftir að athugasemdir séu stuttar og hnitmiðaðar. Ef athugasemdir varða texta og orðalag er óskað eftir beinum tillögum að nýjum texta í stað almennra athugasemda.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum