Hoppa yfir valmynd
16. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Opnar vonandi á gagnlega umræðu um klám og klámvæðingu á Íslandi

Klám út frá lagalegu og samfélagslegu sjónarmiði var viðfangsefni ráðstefnu í Reykjavík í dag þar sem sérfræðingar ræddu málið út frá hlutverki löggjafans og stjórnvalda, ábyrgð foreldra, sálfræði og  fram kom reynslusaga. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setti ráðstefnuna og sagði það meðal annars von sína að ráðstefnan mætti verða til þess að opna á uppbyggilega og gagnlega umræðu um klám og klámvæðingu á Íslandi, umræðu sem ekki einkenndist af afneitun gagnvart þeim veruleika sem væri til umfjöllunar.

Ögmundur Jónasson innanríksráðherra setti ráðstefnu um klámvæðingu í Háskóla Íslands í dag.
Ögmundur Jónasson innanríksráðherra setti ráðstefnu um klámvæðingu í Háskóla Íslands í dag.

Að ráðstefnunni stóðu innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands. Fyrirlestrar ráðstefnunnar voru teknir upp og verða birtir á netinu í lok vikunnar.

Gail Dines var aðalfyrirlesari ráðstefnunnar.Lykilfyrirlesari ráðstefnunnar var Gail Dines, prófessor við Wheelock College í Boston, en hún hefur rannsakað og ritað um klám í rúma tvo áratugi. Í fyrirlestri sínum fjallaði Dines meðal annars um hvernig fjölmiðlafræðingar, femínistar og félagsfræðingar hafa skilgreint áhrif kláms og klámfengis efnis á samfélagið annars vegar og á sjálfsmynd fólks hins vegar. Dines notar dæmi af fjölsóttum klámsíðum og úr tónlistarmyndböndum til að greina þá ólíku mynd sem dregin er upp af konum annars vegar og körlum hins vegar og þá ímynd sem sett er fram um samskipti kynjanna. Einnig ræddi Dines um hvernig bregðast eigi við klámvæðingu. 

Ögmundur Jónasson sagði í upphafi ávarps síns að fyrir tveimur árum hefðu um fjörtíu manns komið saman í gamla dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu í Skuggasundi, fulltrúar frá ráðuneytum, lögreglu, Stígamótum, neyðarmóttöku vegna nauðgana, ríkissaksóknara, dómstólum, stofnunum, mannréttindasamtökum, kvennahreyfingunni, fagfélögum, þingflokkum og fræðasamfélagi. Markmiðið hefði verið skýrt: Að ræða meðferð nauðgunarmála í réttarvörslukerfinu. Síðan sagði ráðherra:

,,Til fundarins var ekki boðað upp úr þurru. Öllum sem sjá vildu var ljóst að einhvers staðar var pottur brotinn. Í fyrsta lagi þá var og er enn ljóst að kynferðisofbeldi þrífst á Íslandi í ríkum mæli, svo ríkum að hætt er við því að fólk láti hugfallast, loki augunum og láti sem vandinn sé ekki til. En afneitun er ábyrgðarlaus því ekki vinnur hún bug á vandanum, þvert á móti þá viðheldur hún ofbeldinu og eykur á sársauka þeirra sem fyrir því verða. Í öðru lagi mátti ætla – og má enn ætla – að úrræði réttarkerfisins nái aðeins utan um brot af þeim kynferðisbrotamálum sem upp koma.”

Frá ráðstefnu um klám sem haldin var 16. október.

Ráðherra sagði að í framhaldi af áðurnefndum fundi hefði verið efnt til smærri funda þar sem málin voru rædd í þaula og fram hafi komið fjölmargar ábendingar sem reynt hefði verið að framfylgja. Þar megi nefna ákall um frekari fræðslu í málaflokknum og um fræðilegar rannsóknir á meðferð nauðgunarmála. Einnig sagði hann hafa komið fram áhyggjur af aukinni klámnotkun og klámvæðingu og mögulegum áhrifum þess á kynferðisbrot. ,,Þannig telja fagaðilar sem starfa í málaflokknum – við rannsóknir brota, með sakborningum eða brotaþolum – að áhrifa kláms gæti í kynferðislegu ofbeldi. Þessar ábendingar tel ég að við verðum að taka alvarlega,” sagði ráðherra ennfremur. Hann sagði klám ekki viðfangsefni réttarkerfisins eins, um það þyrfti að fjalla út frá samfélagslegu, heilbrigðislegu og félagslegu sjónarhorni og þess vegna stæðu þrjú ráðuneyti að ráðstefnunni ásamt Háskólanum.

Frá ráðstefnu um klám sem haldin var 16. október.

Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni voru Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Sigríður Hjaltested, saksóknari hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Þorbjörg Sveinsdóttir, starfsmaður hjá Barnahúsi, Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta og Guðjón H. Hauksson, kennari við Menntaskólann á Akureyri.

Upptökur frá ráðstefnunni:

  • Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra: Setning  - UPPTAKA
  • Gail Dines, prófessor við Wheelock College í Boston: „Sex(ism), Identity, and Intimacy in a Porn Culture - UPPTAKA
  • Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands: Hugtakið klám samkvæmt 210. gr. hegningarlaga og beiting ákvæðisins í dómaframkvæmd - UPPTAKA
  • Sigríður Hjaltested, aðstoðarsaksóknari hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu: Rannsókn og meðferð brota á banni gegn klámi- UPPTAKA
  • Þorbjörg Sveinsdóttir, MS í sálfræði og starfsmaður hjá Barnahúsi: Áhrif kláms á börn og unglinga - UPPTAKA
  • Guðjón H. Hauksson, framhaldsskólakennari og faðir: Unglingar á klámbekk – ábyrgð foreldra, skóla og samfélags - UPPTAKA
  • Ráðstefnuslit: Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra - UPPTAKA

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum