Hoppa yfir valmynd
9. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Skráning hafin á ráðstefnu um klám í næstu viku

Fjallað verður um klám út frá lagalegu og samfélagslegu sjónarmiði á ráðstefnu næstkomandi þriðjudag í Háskóla Íslands. Að ráðstefnunni standa innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið í samvinnu við lagadeild Háskóla Íslands. Skráning fer fram með því að senda póst á netfangið [email protected] en ráðstefnan er öllum opin.

Heiti ráðstefnunnar er: Klám: Lög, kynferði, (ó)menning, sjálfsmynd og nánd. Meginefni snýst um spurninguna hvert sé hlutverk löggjafans og stjórnvalda og hvernig skilgreina eigi klám. Ráðstefnan fer fram þriðjudaginn 16. október í hátíðasal HÍ í aðalbyggingunni og stendur frá kl. 13 til 17. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra setur ráðstefnuna og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, slítur henni.

Lykilfyrirlesari ráðstefnunnar er Gail Dines, prófessor við Wheelock College í Boston, en hún hefur rannsakað og ritað um klám í rúma tvo áratugi. Í fyrirlestri sínum mun Dines m.a. fjalla um hvernig fjölmiðlafræðingar, femínistar og félagsfræðingar hafa skilgreint áhrif kláms og klámfengis efnis á samfélagið annars vegar og á sjálfsmynd fólks hins vegar. Dines notast við dæmi af fjölsóttum klámsíðum og úr tónlistarmyndböndum til að greina þá ólíku mynd sem dregin er upp af konum annars vegar og körlum hins vegar og þá ímynd sem sett er fram um samskipti kynjanna. Loks fjallar Dines um hvernig bregðast eigi við klámvæðingu. 

Aðrir fyrirlesarar á ráðstefnunni eru Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, Sigríður Hjaltested, saksóknari hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Þorbjörg Sveinsdóttir, starfsmaður hjá Barnahúsi, Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta og Guðjón H. Hauksson, kennari við Menntaskólann á Akureyri.

Ráðstefnan er liður í samráðsferli ráðuneytanna þriggja um málaflokkinn og markmiðið er að efna til umræðu um hvert hlutverk stjórnvalda eigi að vera þegar kemur að klámi, með tilliti til dreifingar, notkunar og einstaklingsbundinna og samfélagslegra áhrifa. Samkvæmt almennum hegningarlögum er dreifing, innflutningur, sala, útbýting og prentun kláms refsiverð á Íslandi. Í seinni tíð hefur sjaldan verið refsað fyrir brot á þessum lögum og takmörkuð umræða hefur farið fram um hvar mörkin liggja á milli kláms og kynferðislega opinskás efnis.

Frá árinu 2010 hefur innanríkisráðuneytið (áður dómsmála- og mannréttindaráðuneyti) staðið fyrir umræðu um meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu og efnt til ráðstefnuhalds um ýmsa þætti þessa málaflokks í samstarfi við lagadeild Háskóla Íslands. Í því ferli hefur ítrekað verið bent á að klámnotkun hafi færst í aukana og að hún hafi bein áhrif á viðhorf ungs fólks til kynlífs og kynfrelsis. Þannig sé hætta á að klám hafi áhrif á kynferðisbrot.

Dagskrá:

13:00-13:10   Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra: Setning

13:10-14:10   Gail Dines, prófessor við Wheelock College í Boston: „Sex(ism), Identity, and Intimacy in a Porn Culture“

14:10-14:30   Spurningar og umræður

14:30-14:50   Kaffihlé

14:50-15:10  Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands: Hugtakið klám samkvæmt 210. gr. hegningarlaga og beiting ákvæðisins í dómaframkvæmd

15:10-15:30   Sigríður Hjaltested, aðstoðarsaksóknari hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu: Rannsókn og meðferð brota á banni gegn klámi

15:30-15:40   Reynslusaga: Að ánetjast klámi

15:40-16:00   Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta: Klám er hugmyndafræði kynferðisofbeldis

16:00-16:20   Þorbjörg Sveinsdóttir, MS í sálfræði og starfsmaður hjá Barnahúsi: Áhrif kláms á börn og unglinga

16:20-16:40   Guðjón H. Hauksson, framhaldsskólakennari og faðir: Unglingar á klámbekk – ábyrgð foreldra, skóla og samfélags

16:40-17:00   Umræður

Ráðstefnuslit: Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Léttar veitingar að lokinni ráðstefnu

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum