Hoppa yfir valmynd
4. október 2012 Dómsmálaráðuneytið

Taka verður kynferðislegt ofbeldi alvarlega

Fræðsluþing um hlutverk grunnskóla í forvörnum og viðbrögðum við kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum eru nú haldin víðs vegar um landið og hafa verið haldnir fundir í Borgarnesi, Akureyri og á Egilsstöðum. Þingin eru hluti af vitundarvakningu Evrópuráðsins um málefnið en hér á landi sér verkefnisstjórn innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis um átakið.

Ögmundur Jónasson á fundi um vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.
Ögmundur Jónasson á fundi um vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra ávarpaði fundinn á Akureyri í gær og sagði vitundarvakninguna til marks um að kynferðislegt ofbeldi yrði að taka alvarlega og væri tekið alvarlega. Málið hefði verið sett á dagskrá í alþjóðlegu samstarfi um mannréttindamál og ríki Evrópu hefðu bundist böndum um að útrýma kynferðislegu ofbeldi gegn börnum í hvaða mynd sem væri. Sagði ráðherra brýnt að slíkt gerðist ekki aðeins með einu átaki eða verkum einnar manneskju, það yrði að gerast með þátttöku alls samfélagsins. Ráðherra sagði einnig brýnt að samfélagið væri tilbúið til að horfast í augu við kynferðislegt ofbeldi og að menn mættu ekki falla í gryfju afneitunar. Við yrðum að mynda keðju sem virkaði þegar börn á Íslandi kölluðu eftir hjálp.

Á fyrri hluta hvers fræðsluþings hefur verið fjallað um sáttmála Evrópuráðsins og um fræðslu fyrir börn um kynferðislegt ofbeldi en í seinni hlutanum um nauðganir og kynferðislegt ofbeldi milli unglinga. Sex fyrirlesarar flytja erindi og stýra einnig hópumræðum um efnið.

Næsti fundur í átakinu verður á Hvolsvelli 8. október, á Ísafirði 9. október og í Reykjavík 10. október. Nánari upplýsingar má sjá á slóðinni: www.vel.is/vitundarvakning. Fulltrúar allra grunnskóla landsins eru sérstaklega boðaðir til landshlutaþinganna sem auk þess eru  opin öðrum  sem vinna að velferð og bættum hagsmum barna.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum