Hoppa yfir valmynd
30. september 2012 Dómsmálaráðuneytið

Landshlutaþing um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum

Á næstu tveimur vikum verða haldin sex fræðsluþing í jafnmörgum landshlutum þar sem fjallað verður um hlutverk grunnskóla í forvörnum og viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum. Landshlutaþingin eru hluti af vitundarvakningu í samræmi við sáttmála Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misnotkun og kynferðislegri misneytingu gagnvart börnum. Samkvæmt sáttmálanum skal beina fræðslu að börnum og að fólki sem á samskipti við börn í starfi sínu einkum  í grunnskólum, barnavernd, félagsþjónustu og á sviði heilbrigðisþjónustu.

Kynferðislegt ofbeldi er alvarleg ógn við líf og heilsu barna um allan heim. Það fer oft fram innan veggja heimilis og þar af leiðandi þarf fræðsla um slíkt ofbeldi líka að eiga sér stað utan veggja heimilsins. Þar gegnir grunnskólinn lykilhlutverki enda er hann eina stofnunin sem nær til allra barna.

Fyrsta landshlutaþingið fer fram í Borgarnesi þriðjudaginn 2. október næstkomandi og það síðasta í Reykjavík miðvikudaginn 10. október. Einnig verða haldin þing á Akureyri, Egilsstöðum, Hvolsvelli og Ísafirði.

Á fyrri hluta hvers þings verður fjallað um sáttmála Evrópuráðsins og um fræðslu fyrir börn um kynferðislegt ofbeldi en í seinni hlutanum verður fjallað um nauðganir og kynferðislegt ofbeldi milli unglinga. Sex fyrirlesarar flytja erindi og stýra einnig hópumræðum um efnið.

Fulltrúar allra grunnskóla landsins eru sérstaklega boðaðir til landshlutaþinganna sem auk þess eru  opin öðrum  sem vinna að velferð og bættum hagsmum barna svo lengi sem húsrúm leyfir. Hægt er að skrá sig til leiks með því að senda tölvupóst á netfangið: [email protected]. 

Verkefnisstjórn innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis heldur utan um átakið. Nánari upplýsingar er að finna á vefslóðinni: www.vel.is/vitundarvakning.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum