Hoppa yfir valmynd
25. september 2012 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Drög að stöðumati málaflokka innanríkisráðuneytisins kynnt á forstöðumannafundi

Innanríkisráðuneytið efndi í dag til reglulegs forstöðumannafundar stofnana sem tilheyra ráðuneytinu og sóttu hann hátt í 100 manns. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti ávarp í upphafi fundarins og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri ræddi um vinnu við mótun innanríkisstefnu.

Ögmundur Jónasson ávarpar fund forstöðumanna innanríkisráðuneytisins.
Ögmundur Jónasson ávarpar fund forstöðumanna innanríkisráðuneytisins.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fór í ávarpi sínu nokkrum orðum um þau þingmál sem hann hyggst leggja fyrir Alþingi í vetur en þau eru alls liðlega 30 auk þingsálytkunartillagna um fjarskiptaáætlun, landsáætlun í mannréttindamálum, um innanríkisstefnu og upplýsingasamfélagið. Meðal frumvarpa sem ráðherra kvaðst vilja leggja áherslu á eru heildarendurskoðun umferðarlaga og breyting á kosningalögum sem varðar aðstoð við fatlaða í kjörklefa. Þá sagði hann mikilvægt að í fjárlögum næsta árs yrði gert ráð fyrir fjárveitingum vegna byggingar nýs fangelsins, endurbóta í Landeyjahöfn og fleiri framkvæmdum. Einnig minnti hann á að hlutur sveitarfélaga í opinberum fjármálum yrði sífellt stærri og lét nærri að hann væri um þriðjungur á móti fjárhagsumsvifum ríkisins. Hann sagði innanríkisstefnu mikilvæga sem framtíðarsýn ráðuneytisins, hún væri ekki verk eins ráðherra heldur stefna sem legði meginlínur til framtíðar.

Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri sagði það spennandi verkefni að byggja framtíðarsýn með stofnunum ráðuneytisins. Setja ætti metnaðafull markið í anda mannúðar og réttlætis en það væri það leiðarljós sem ráðherra hefði markað. Ráðuneytisstjórinn rifjaði upp að gildi ráðuneytisins væru traust sem byggðist á framsýni, mannúð og fagmennsku. Í undirbúningi væri ein meginstefna fyrir alla málaflokka ráðuneytisins, eins konar samfélagssáttmáli. Hún sagði hér einstakt tækifæri til að hafa áhrif og sagði að hlustað yrði á það sem forstöðumenn hefðu fram að færa.

Frá fundi innanríkisráðuneytisins með forstöðumönnum.

Ingilín Kristmannsdóttir skrifstofustjóri fjallaði um vinnu við stöðumat og bauð forstöðumönnum stofnana að senda ráðuneytinu athugasemdir og vangaveltur um matið. Einnig sagði hún að landshlutasamtökum sveitarfélaga hefði verið boðið að senda ráðuneytinu ábendingar. Ætlunin væri að leggja drög að innanríkisstefnu á næstu mánuðum og að þau yrðu kynnt í janúar. Á síðari hluta fundarins ræddu fundarmenn um helstu áhersluatriði varðandi ýmsa málaflokka ráðuneytisins sem lögð voru fyrir þá. Verða niðurstöður þeirrar umræðu nýttar við frekari undirbúning stefnumótunar.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum