Hoppa yfir valmynd
12. september 2012 Dómsmálaráðuneytið

Íslendingar taka þátt í leitar- og björgunaræfingu við Grænland

Íslendingar taka um þessar mundir þátt í fjölþjóðlegri leitar- og björgunaræfingu við austurströnd Grænlands ásamt samstarfsaðilum frá Kanada, Noregi, Bandaríkjunum, Grænlandi, Færeyjum og Danmörku. Frá Íslandi taka þátt Landhelgisgæslan, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fleiri aðilar. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fylgist með æfingunni í Meistaravík í dag.

Þór tekur þátt í björgunaræfingu við Grænland sem lýkur á morgun.
Þór tekur þátt í björgunaræfingu við Grænland sem lýkur á morgun.

Danski sjóherinn stjórnar æfingunni sem haldin er í tengslum við Norður heimskautsráðið en hún hefur staðið frá vikubyrjun en henni lýkur á morgun. Tilgangurinn er að ofangreindar þjóðir æfi sameiginleg viðbrögð sín við því þegar skemmtiferðaskip strandar á leið frá Svalbarða en einnig er uppi eldur í skipinu og leki kemur að því. Verkefnin snúast um leit og björgun farþega í skipinu og flutningi slasaðra á spítala í Nuuk á Grænlandi og á Íslandi. Þar sem skipið er statt við austurströnd Grænlands er langt í allar björgunarsveitir og fæst með æfingunni þjálfun í raunverulegum leitar- og björgunarviðbrögðum Norðurskautsþjóðanna.

Auk starfsmanna Landhelgisgæslunnar í stjórnstöð er varðskipið Þór á vettvangi, einnig TF-SIF  og gistiaðstaða og flugskýli Gæslunnar á Keflavíkurflugvelli verða einnig nýtt. Aðrir þátttakendur frá Íslandi eru Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Isavia, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Rauði kross Íslands. Þá er samhæfingarstöð almannavarna virkjuð meðan á æfingunni stendur. Sjá má nánari lýsingu á æfingunni á vef Landhelgisgæslunnar.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum