Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2012 Dómsmálaráðuneytið

Minnismerki um Hrafna-Flóka afhjúpað í Fljótum

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra afhjúpaði laugardaginn 11. ágúst minnismerki um Hrafna-Flóka Vilgerðarson sem sett hefur verið upp að Ysta-Mói í Fljótum. Hópur áhugafólks um uppbyggingu í Fljótum hafði veg og vanda að verkinu og fyrir hópnum fór Herdís Sæmundardóttir sem stýrði athöfn við minnismerkið.

Frá afhjúpuninni að Ysta-Mói. Ögmundur Jónasson afhjúpar listaverkið og Herdís Sæmundardóttir og Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson afhjúpuðu myndina á stéttinni.
Frá afhjúpuninni að Ysta-Mói. Ögmundur Jónasson afhjúpar listaverkið og Herdís Sæmundardóttir og Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson afhjúpuðu myndina á stéttinni.

Minnismerkið er lágmynd af þremur hröfnum Hrafna-Flóka á stöpli og mynd á stétt við stöpulinn. Stendur það rétt við þjóðveginn í Fljótum þar sem hann fer um land Ysta-Mós. Listaverkið er eftir Guðbrand Ægi Ásbjörnsson, myndmenntakennara á Sauðárkróki. Í ávarpi Herdísar Sæmundardóttur við athöfnina kom fram að Sveitarfélagið Skagafjörður og Vegagerðin hefðu aðstoðað við undirbúning og nokkur fyrirtæki og sjóðir styrktu framkvæmdina. Þakkaði hún þeim fyrir aðstoð svo og öllum þeim einstaklingum sem komu við sögu á ýmsan hátt.

Ögmundur Jónasson afhjúpaði síðan verkið með aðstoð Herdísar og Guðbrandar Ægis. Í kaffisamæti í Ketilási flutti ráðherra ávarp þar sem hann meðal annars rakti ferðir Hrafna-Flóka til Íslands og hvernig hann nam land á Vestfjörðum fyrst en síðar í Fljótum. Hjalti Pálsson sagnfræðingur flutti tölu og kom víða við í sögum sínum af Fljótamönnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum