Hoppa yfir valmynd
19. júní 2012 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Kynbundinn launamunur í innanríkisráðuneytinu leiðréttur

Innanríkisráðuneytið hefur ákveðið að leiðrétta kynbundinn launamun í ráðuneytinu en við jafnlaunaúttekt kom í ljós 2,5% óútskýrður launamunur meðal sérfræðinga ráðuneytisins. Ráðuneytið telur óviðunandi að konur og karlar njóti ekki sömu launa fyrir sömu störf og fagnar úttektinni sem gefur tækifæri til að leiðrétta þessa skekkju.

Innanríkisráðuneytið varð til við samruna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis 1. janúar 2011. Þetta er í fyrsta sinn sem fram fer jafnlaunaúttekt í Stjórnarráðinu og er hún framkvæmd innan allra ráðuneyta. Samkvæmt jafnréttisáætlun ber að kanna árlega hvort fyrir hendi sé kynbundinn launamunur og jafnframt er yfirstjórn gert að skýra frá því hvernig hún hyggist bregðast við því. Sérstaklega skal kanna hvort kynbundinn launamunur sé á fastri yfirvinnu eða aukagreiðslum, s.s. bílastyrkjum eða öðrum hlunnindum.

Við könnun í innanríkisráðuneytinu kom í ljós að kynbundinn launamunur milli kvenna og karla í sérfræðingsstöðum var allt að 3,6%. Að teknu tilliti til menntunar, starfsaldurs og reynslu var óútskýrður launamunur 2,5%. Ekki kom fram launamunur varðandi fasta yfirvinnu.

Ráðuneytið hefur brugðist við þessum niðurstöðum með því að leiðrétta muninn. Í því skyni var launum nokkurra starfsmanna breytt og hlutaðeigandi tilkynnt um það í dag.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum