Hoppa yfir valmynd
23. maí 2012 Forsætisráðuneytið

Morgunverðarfundur um aðgang útlendinga frá ríkjum utan EES að Íslandi

Aðgangur útlendinga frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins að Íslandi verður til umfjöllunar á næsta fundi í fundaröð innanríkisráðuneytisins um mannréttindamál. Fundurinn verður haldinn í Iðnó í Reykjavík miðvikudaginn 30. maí kl. 9 til 10.30. Þetta er sjötti og síðasti fundurinn að sinni í fundaröð innanríkisráðuneytisins um hin ýmsu svið mannréttindamála.

Á fundinum segir Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, frá starfi starfshóps um málefni útlendinga utan EES sem innanríkisráðherra setti á fót í júlí á síðasta ári. Hópurinn hefur fjallað um aðgengi útlendinga utan EES að Íslandi, jafnt þeirra sem óska eftir dvöl á Íslandi og þeirra sem sækja um hæli. Að loknu erindi hennar verða pallborðsumræður.

Dagskrá verður sem hér segir:

9.00 - 9.10      Ávörp ráðherra

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra

9.10 - 9.40      Halla Gunnarsdóttir, formaður starfshóps um málefni útlendinga utan EES

9.40 - 10.10    Pallborðsumræður

Í pallborði eiga sæti fulltrúar frá:

  • Mannréttindaskrifstofu Íslands
  • Útlendingastofnun
  • Fjölmenningarsetri
  • No borders
  • Rauða krossi Íslands
  • Samtökum kvenna af erlendum uppruna
  • Sambandi íslenskra sveitarfélaga

10.10-10.30    Umræður og fyrirspurnir úr sal.


Innanríkisráðuneytið hóf fyrir áramót fundaröð um mannréttindamál í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum. Haldnir hafa verið fundir í hverjum mánuði og kastljósinu beint að ýmsum sviðum mannréttinda, svo sem tjáningarfrelsi og lýðræði, trúfrelsi, mannréttindum  geðsjúkra og hatursáróðri. Fundaröðin er liður í viðleitni ráðuneytisins til að tryggja að stefnumótun í svo margþættum og mikilvægum málaflokki sem mannréttindi eru eigi sér stað í samstarfi og í beinum tengslum við hagsmunaaðila, fræðasamfélag og almenning.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum