Hoppa yfir valmynd
10. maí 2012 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra telur drög að nýrri stjórnarskrá ekki ganga nógu langt varðandi lýðræði

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra flutti setningarávarp á alþjóðlegri ráðstefnu um samfélagsáföll, lýðræði og umbreytingaskeið. Ráðherra sagði að ráðstefnan væri mikilvægt innlegg í þá umræðu sem nú færi fram á Íslandi um lýðræði þar á meðal um ný drög að stjórnarskrá fyrir Ísland. Hann sagði að drög Stjórnlagaráðs væru skref í lýðræðisátt og að ýmsu leyti til framfara en gagnrýndi þau jafnframt.

Innanríkisráðherra flutti setningarávarp á ráðstefnu um lýðræði og samfélagsáföll.
Innanríkisráðherra flutti setningarávarp á ráðstefnu um lýðræði og samfélagsáföll.

Innanríkisráðherra kvaðst telja að þau gengju engan veginn nógu langt hvað varðaði lýðræðið. Hvers vegna mætti til dæmis ekki krefjast  þjóðaratkvæðis um fjárhagsleg málefni og milliríkjasamninga? Þá væri einkaeignarréttur skilgreindur sem mannréttindi en ekki almannaréttur að sama skapi. Þetta væri ekki í samræmi við nýja tíma og þau sjónarmið sem hlytu að verða uppi á þeirri öld sem gengin er í garð.

Ásamt Eddu-öndvegissetri standa að ráðstefnunni Institute of Advanced Studies in the Social Sciences í Paris (EHESS), Reykjavíkurborg, innanríkisráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, og franska sendiráðið á Íslandi.

Meginviðfangsefni ráðstefnunnar sem fram fer í Öskju í Reykjavík og stendur fram á helgina eru samfélagsáföll og pólitísk umbreytingarskeið með skírskotun til efnahagskreppunnar og stjórnmálaumrótsins sem sigldi í kjölfar hennar. Fjallað er um lýðræði og íslenska stjórnlagaráðið/þingið, áhrif efnahagskreppunnar á kynjajafnrétti og velferðarkerfið og pólitískar, samfélagslegar og menningarlegar tilraunir til að glíma við afleiðingar hrunsins og kreppunnar á Íslandi og erlendis. Markmiðið er að leiða saman fræðimenn á sviðum stjórnmála- og kynjafræði, heimspeki, sagnfræði, bókmenntafræði og lögfræði til að ræða félagsleg umbreytingar- og endurreisnarskeið í þverþjóðlegu samhengi.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum