Hoppa yfir valmynd
4. maí 2012 Dómsmálaráðuneytið

Erfið staða hjá sóknum vegna fjárhagsvanda og skerðingar sóknargjalda

Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði síðastliðið sumar til að meta áhrif niðurskurðar fjárveitinga á starfsemi þjóðkirkjunnar og afleiðingar þess að haldið yrði áfram á þeirri braut hefur nú skilað ráðherra skýrslu sinni. Fram kemur í skýrslunni að eftir athuganir á ársreikningum sókna og af lýsingum fulltrúum sóknarnefnda sé óhætt að draga þá ályktun að grunnstoðir í starfsemi safnaða þjóðkirkjunnar séu að hruni komnar vegna fjárhagsvanda.

Nefndina skipa þau Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi ráðherra, formaður, án tilnefningar, Oddur Einarsson, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, án tilnefningar, séra Gísli Jónasson, prófastur Reykjavíkurprófastsdæmis eystra, tilnefndur af kirkjuráði og séra Halldóra Þorvarðardóttir, prófastur Suðurprófastsdæmis, tilnefnd af kirkjuráði. Fyrsti fundur nefndarinnar var 3. ágúst á síðasta ári; hún skilaði áfangaskýrslu til ráðherra í nóvember og afhenti í dag lokaskýrslu sína.

Nefnd um fjármál Þjóðkirkjunnar skilaði innanríkisráðherra skýrslu.

Nefndinni var samkvæmt erindisbréfi ekki falið að leggja fram beinar tillögur til úrbóta en í lokaorðum skýrslunnar segir að rétt sé að fram komi að með því að stíga nú það skref að hækka sóknargjöldin á næsta ári upp í 852 krónur á sóknarbarn á mánuði úr 701 krónu mun vísitala sóknargjaldatekna þjóðkirkjusafnaða að öðru óbreyttu hækka úr 82,2 á þessu ári og í 100. Þar með væri náð þeim árangri að bæta sóknunum liðlega tvo þriðju hluta þeirrar skerðingar sem þær sættu umfram aðra og unnt ætti að vera að bæta þeim það sem þá vantaði á árinu 2014.

Nefndin telur eðlilegt að Þjóðkirkjan taki á sig skerðingu til jafns við aðrar stofnanir þjóðfélagsins en telur réttlætismál að bæta kirkjunni þá umframskerðingu sem hún hefur orðið fyrir því það hljóti að hafa verið mistök að hún var skert meira en aðrar stofnanir.

Að lokum minnir nefndin á, eins og hún gerði í lokaorðum áfangaskýrslu sinnar að jafnvel þótt sóknagjaldatekjur þjóðkirkjusafnaðanna yrðu á næsta ári hækkaðar upp í 852 krónur liggur nærri að frá því skerðing þeirra hófst hafi runnið í ríkissjóð um tveir milljarðar króna af þessum tekjustofni safnaðanna vegna skerðingar umfram aðra.

Megintekjustofnar Þjóðkirkjunnar af fjárlögum eru annars vegar launagreiðslur presta og starfsmanna Þjóðkirkjunnar samkvæmt samkomulagi frá árinu 1997 og hins vegar skil á sóknargjöldum sem ríkið tók að sér að innheimta og var árið 1987 umreiknað í tiltekið hlutfall tekjuskatts. Í áfangaskýrslu starfshópsins kom fram að frá og með fjárlögum 2009 hafi báðir ofangreindir tekjustofnar Þjóðkirkjunnar verið skertir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum