Hoppa yfir valmynd
10. apríl 2012 Innviðaráðuneytið

Margþætt átak til að bæta opinbera vefi

Hvað má betur fara á vef stofnunarinnar? er heiti námskeiðs sem innanríkisráðuneytið og  Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ halda fyrir vefstjóra og umsjónarmenn opinberra vefja nú á vormánuðum. Námskeiðið er hluti af átaki sem hefur það að markmiði að bæta vefi stofnana ríkisins.

Forsíðan á UT-vefnum, ut.is.
Forsíðan á UT-vefnum, ut.is.

Átakinu er sérstaklega ætlað að bæta innihald, nytsemi, aðgengi fatlaðra, rafræna þjónustu og lýðræðislega virkni á vefjum opinberra stofnana. Því er skipt í nokkur verkefni: námskeið fyrir vefstjóra eða umsjónarmenn vefja, uppfærslu handbókar um opinbera vefi og beina aðstoð við vefumsjónarfólk.

Námskeið í kjölfar könnunar

Annað hvert ár stendur ráðuneytið fyrir könnun á opinberum vefjum þar sem metið er hve vel þeir uppfylla kröfur um aðgengi, nytsemi, innihald og þjónustu.  Á námskeiðinu Hvað má betur fara á vef stofnunarinnar? sem haldið verður í maí verður kastljósinu beint að þeim þáttum sem ekki töldust koma nógu vel út í síðustu könnun, sem kynnt var í ársbyrjun, auk þess sem fjallað verður um notkun samfélagsmiðla, lýðræðisvirkni og rafræna málsmeðferð. Þá verður kynnt ný uppfærsla af handbók um opinbera vefi.

Námskeiðið, sem tekur tvo morgna, verður haldið í tvígang: annars vegar 2. og 3. maí og hins vegar 23. og 24. maí. Kostnaði við námskeiðið verður haldið í lágmarki.

Vefstjórar heimsóttir

Verkefnið Bein aðstoð við vefstjóra sem hefst í byrjun maí felst í því að sérfræðingur í vefmálum fer í stofnanir og veitir vefstjórum eða umsjónarmönnum vefja beina aðstoð og leiðsögn. Lögð verður áhersla á að kenna hverjum vefumsjónarmanni hvernig bæta megi þann vef sem hann sér um, til að mæta kröfum sem gerðar eru til opinberra vefja í vefhandbók og fram koma í könnuninni Hvað er spunnið í opinbera vefi? Einnig verður kynnt hvernig stofnanir geti nýtt sér rafræn skilríki, auðkenningarþjónustu og rafræn skjalaskil á Ísland.is.

Uppfærsla vefhandbókarinnar

Handbók um opinbera vefi  sem var unnin og birt á UT-vefnum árið 2008 verður nú uppfærð með hliðsjón af tæknilegri  þróun. Þá verður m.a. fjallað um samfélagsmiðla og bætt við nýjum kafla um lýðræðisvirkni. Ráðgert er að þessari vinnu verði lokið fyrir 1. maí og verður nýuppfærð vefhandbók kynnt á námskeiðunum með vefstjórum og umsjónarmönnum opinberra vefja í maí.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum