Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

Athugasemdir á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna teknar alvarlega

Unnið er að því á vegum innanríkisráðuneytisisins að taka afstöðu til þeirra athugasemda sem komu fram á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í reglubundnu eftirliti með mannréttindum á Íslandi sem fram fór í Genf 10. október síðastliðinn. Ráðuneytið fagnar umfjöllun um niðurstöðurnar og hefur nú fjögur ár til að hrinda í framkvæmd þeim umbótum sem ráðist verður í.

Slíkt eftirlit með (Universal Periodic Review) er eitt form eftirlits með mannréttindum í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Það er ólíkt eftirliti stofnunarinnar á grundvelli mannréttindasamninga sem ríki eru aðilar að, þar sem að í þessu reglubundna eftirliti hafa ríkin aðhald hvert með öðru á vettvangi mannréttindaráðsins á jafnræðis- og gagnkvæmnisgrundvelli. Í ferlinu er skoða ríkin hvert um sig stöðu mannréttindamála heima fyrir með gagnrýnum hætti, gera grein fyrir jákvæðum atriðum á sviði mannréttindamála og  réttindaverndin og mæta síðan til samtals um þau atriði á vettvangi mannréttindaráðsins.

Ísland var í slíkri fyrirtöku í október 2011. Við undirbúning hennar unnu starfsmenn stjórnarráðsins, þvert á ráðuneyti og í samvinnu við starfsmenn undirstofnana, náið saman að því að greina stöðu mannréttindamála hér á landi. Drög að skýrslu Íslands voru kynnt á opnum fundi sl. vor og barst ráðuneytinu fjöldi athugasemda frá hagsmunaaðilum og einstaklingum í kjölfarið.  Þá var unnin skuggaskýrsla af hálfu Mannréttindaskrifstofu Íslands sem send var mannréttindaráðinu auk þess sem félagasamtökum hérlendis var gefinn kostur á að koma ábendingum á framfæri.

Fyrirtaka Íslands í Genf á grundvelli skýrslunnar var send út í beinni útsendingu á vefsvæði mannréttindanefndarinnar og er einnig aðgengileg hér.

Í kjölfar fyrirtökunnar stóð ráðuneytið fyrir opnum fundi þann 9. desember þar sem niðurstöður fyrirtökunnar voru kynntar. Sjá frétt á heimasíðu innanríkisráðuneytis.

Unnið er að því innan stjórnarráðsins að taka afstöðu til athugasemdanna sem fyrirtakan hefur skilað og öllum þeim ábendingum sem fram hafa komið í kjölfar hennar. Afstaða Íslands verður svo tekin fyrir á fundi mannréttindaráðs SÞ í Genf 15. mars. Í framhaldi af því hefur Ísland fjögur ár til þess að hrinda í framkvæmd umbótum sem það ákveður að samþykkja eða þar til kemur að næstu úttekt Íslands í ferlinu árið 2016.

Ráðuneytið vill jafnfram upplýsa að hafin er vinna við mótun gerð landsáætlunar í mannréttindamálum fyrir Ísland, þá fyrstu sinnar tegundar hérlendis. Stefnt er að því að leggja áætlunina fyrir Alþingi næsta haust. Eitt af því sem þar verður fjallað um eru leiðir til að fylgja eftir með skipulegum hætti þeim athugasemdum sem fram koma um stöðu mannréttindamála hér á landi.

Fundaröð um mannréttindi

Í tengslum við þetta er hafin röð morgunverðarfunda um mannréttindi, meðal annars í ljósi þeirra athugasemda sem Ísland hefur fengið í reglubundna eftirlitinu á vettvangi mannréttindaráðsins. Lögð er áhersla á að fá fram ólík sjónarmið um álitaefnin svo hægt verði að móta áætlun og aðgerðir á grundvelli athugasemda og sjónarmiða erlendra aðila, á borð við þær sem komu á vettvangi mannréttindaráðsins, sem og innlenda aðila, grasrótarsamtök og hagsmunaaðila.

Sá fyrsti þessara funda var um samning Evrópuráðsins um bann og forvarnir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi, en Ísland skrifaði undir samninginn á síðasta ári. Á fundinum var fjallað með gagnrýnum hætti um þær áskoranir sem stjórnvöld standa frammi fyrir í málaflokknum og til hvaða aðgerða þurfi að grípa svo fullgilda megi samninginn.

Næsti fundur verður um trúfrelsi, meðal annars í ljósi nýlegra lagafrumvarpa sem innanríkisráðherra hefur lagt fram á Alþingi og þeirra athugasemda sem Ísland hefur fengið á alþjóðlegum vettvangi. Stefnt er að því að fundurinn verði haldinn 29. febrúar og verður hann öllum opinn.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum