Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2012 Forsætisráðuneytið

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins heimsækir Ísland

Mannréttindafulltrúi Evrópuráðsins, Thomas Hammarberg frá Svíþjóð, er nú í heimsókn hér á landi og átti meðal annars viðræður við innanríkisráðherra og velferðarráðherra. Mannréttindafulltrúinn heimsækir aðildarlöndin og fundar með stjórnvöldum, ýmsum stofnunum og félagasamtökum og gefur í framhaldinu út skýrslu þar sem ábendingum er komið á framfæri við stjórnvöld.

Thomas Hammarberg og Ögmundur Jónasson ræddust við í dag.
Thomas Hammarberg og Ögmundur Jónasson ræddust við í dag.

Mannréttindafulltrúinn er sjálfstæður innan Evrópuráðsins og er tilgangur hans að vekja athygli á stöðu mannréttindamála meðal aðildarríkjanna. Mannréttindafulltrúinn gaf síðast út skýrslu um Ísland 14. desember 2005.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og Thomas Hammarberg mannréttindafulltrúi áttu viðræður í hádeginu í dag. Ræddu þeir bæði stöðu mannréttindamála á Íslandi og á alþjóða vettvangi. Hammarberg hefur síðustu árin heimsótt fjölmörg lönd í Evrópu til að meta stöu mála og er Ísland síðasti viðkomustaðurinn í yfirferð hans. Hann sagði ýmsar umbætur hafa verið gerðar hér og taldi skýrslu sína ekki hafa að geyma miklar athugasemdir við stöðu mála.

Í heimsókninni til Íslands hefur fulltrúinn lagt áherslu á að kynna sér eftirfarandi atriði:

  • Mismunun og umbætur á jafnréttislöggjöf þar sem horft er til jafnréttis kynjanna, þjóðernisuppruna, kynþátta, einstaklinga með fötlun, aldraða, réttindi samkynhneigðra og transfólks.
  • Starfsemi og sjálfstæði dómstóla og ákæruvaldsins.
  • Félagsleg og efnahagsleg réttindi með tillit til atvinnuleysis, eftirlaunakerfisins, félagslega kerfisins og barnaverndar.
  • Mannréttindaákvæði í tillögum stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskránni.

Mannréttindafulltrúinn hittir auk ráðherranna í heimsókn sinni eftirfarandi félög og stofnanir: 

Amnesty International, Landssamband eldri borgara, Stop the traffik, Unicef, Barnaheill, UN Women, KRFÍ, Hagsmunasamtök heimilanna, Samtökin 78, Hjálpastarf kirkjunnar, Þroskahjálp, ÖBÍ, Siðmennt, Regnbogabörn, Femínistafélag Íslands, Sterk, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Stígamót, Kvennaathvarfið, Umhyggju, Sjónarhól, RKÍ, Samtök íslenskra fiskveiðimanna, ríkissaksóknara, Barnahúsið, umboðsmann barna, Jafnréttisstofu, Hæstarétt og umboðsmann Alþingis.

Thomas Hammarberg átti viðræður bæði við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra og Ögmund Jónasson innanríkisráðherra í dag.

 

Thomas Hammarberg ræddi í dag bæði við Guðbjart Hannesson velferðarráðherra og Ögmund Jónasson innanríkisráðherra. Mannréttindafulltrúinn er frá Svíþjóð og tók við embættinu þann 1. apríl 2006. Kosið er til embættisins og er eingöngu hægt að sitja eitt kjörtímabil sem varir í sex ár. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum