Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2012 Dómsmálaráðuneytið

Skipan sérfræðingahóps um framtíðarfyrirkomulag rannsókna og saksókna í efnahagsbrotamálum

Innanríkisráðherra hefur skipað sérfræðingahóp til að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í efnahagsbrotamálum og leggja fram tillögur að hagfelldu heildarskipulagi slíkra rannsókna.

Rannsóknum og ákærumeðferð fjármuna- og efnahagsbrota er nú sinnt hjá mörgum
stofnunum. Þrátt fyrir aukið samráð umræddra stofnana kann slíkt fyrirkomulag að hafa í för með sér að rannsókn og saksókn efnahagsbrotamála verður flóknari, tímafrekari og
óhagkvæmari en æskilegt væri og heildaryfirsýn yfir hina ætluðu refsiverðu háttsemi skorti.
Þá kunna ákvæði um þagnarskyldu stofnana að leiða til vandkvæða við upplýsingaöflun og
framgang rannsókna að öðru leyti.

Í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 82/2011, sem fjalla um sameiningu embættis
sérstaks saksóknara og efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, er kveðið á um það að
innanríkisráðherra skuli skipa nefnd sérfróðra manna, að höfðu samráði við hlutaðeigandi
ráðuneyti, til þess að endurskoða skipulag og tilhögun rannsókna og saksóknar í
efnahagsbrotamálum. Nefndin skal gera tillögur að hagfelldu heildarskipulagi slíkra
rannsókna í þeim tilgangi að gera þær skilvirkari og markvissari og tryggja sem besta nýtingu fjármuna sem ætlaðir eru í þessu skyni.

Nefndin skal kynna innanríkisráðherra tillögur sínar fyrir 15. maí 2012 og skila endanlegum tillögum sínum að framtíðarfyrirkomulagi rannsóknar og saksóknar í efnahagsbrotamálum ásamt lagafrumvarpi með greinargerð eigi síðar en 10. júní 2012.

Nefndin er þannig skipuð:

  • Sigurður Tómas Magnússon, prófessor, sem jafnframt er formaður
  • Þóra M. Hjaltested, skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu
  • Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri

Með nefndinni starfar Gunnlaugur Geirsson, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum