Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2012 Innviðaráðuneytið

Leggja til að strandsiglingar verði boðnar út með ríkisstyrk

Starfshópur innanríkisráðherra um hvernig koma megi strandsiglingum á að nýju hefur skilað ráðherra tillögum sínum. Leggur hópurinn til að leitað verði tilboða í siglingarnar samkvæmt ákveðnum forsendum þar sem boðið verði í meðgjöf ríkisins til nokkurra ára meðan siglingarnar koma undir sig fótunum. Miðað er við tilraunaverkefni til nokkurra ára og að því loknu standi siglingarnar undir sér.

Guðmundur Kristjánsson formaður starfshóps um strandsiglingar skilaði tillögum til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra í morgun.
Guðmundur Kristjánsson formaður starfshóps um strandsiglingar skilaði tillögum til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra í morgun.

Innanríkisráðherra skipaði snemma á síðasta sumri starfshóp til að leggja fram tillögur um hvernig standa megi að því að koma á strandsiglingum að nýju. Markmiðið er að hefja strandsiglingar sem tryggja hagkvæma sjóflutninga á vörum innanlands og stuðla að lægri flutningskostnaði, jákvæðri byggðaþróun með auknum tækifærum og samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni. Hópurinn skoðaði mögulega flutninga, greindi skipakost, áætlaðan rekstrarkostnað útgerða, viðkomuhafnir, tíðni ferða, áætlun um sjálfbært flutningsverð og önnur atriði sem skipt geta máli. Hópurinn fór yfir ýmsar skýrslur og greinargerðir sem fyrri starfshópar höfðu lagt fram. Hópurinn gerði markaðsrannsóknir í samvinnu við atvinnuþróunarfélög undir stjórn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Var kannaður áhugi flutningsaðila á strandflutningum svo og áhugi framleiðenda og annarra kaupenda vöruflutninga.

Vikulegar siglingar

Niðurstaða hópsins er sú að leggja til að strandsiglingar verði boðnar út. Gerð hafa verið drög að rekstraráætlun fyrir skipið og undirbúin gögn fyrir hugsanlegt útboð en Ríkiskaup voru til ráðgjafar um þann þátt. Samkvæmt markaðsrannsóknum er líklegt að flytja megi í strandsiglingum rúmlega 70 þúsund tonn á ári til að byrja með. Flutningar muni aukast þegar þjónustan hefur fest sig í sessi. Miðað er við að skip sigli hringinn frá höfuðborgarsvæðinu umhverfis landið í viku hverri og sinni flutningum milli hafna á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Gefur það möguleika á flutningi milli þessara hafna bæði á hráefni og afurðum fyrir framleiðslufyrirtæki en einnig á margs konar dagvöru fyrir verslun og þjónustu.

Starfshópur um strandsiglingar skilaði tillögum til innanríkisráðherra 24. janúar.

Þá eru gerðar ákveðnar kröfur til skips sem notað yrði til flutninganna. Skal það geta lestað að minnsta kosti 1.500 tonn, vera með síðuport og með frystilest fyrir 1.000 tonn að lágmarki. Þá skal skipið hafa pláss fyrir að minnsta kosti 20 gámaeiningar og krana sem lyft getur 40 feta gámi allt að 25 tonnum í 20 metra frá síðu skipsins. Einnig er áskilið að umsjónaraðili sé í hverri viðkomuhöfn og gert er að skilyrði að bjóðandi hafi minnst tveggja ára reynslu af rekstri flutningaskipa.

Tilraunasiglingar hefjist á næsta ári

Innanríkisráðherra mun nú fara yfir tillögurnar og í framhaldinu kynna hugsanlegt útboð í ríkisstjórninni. Stefnt er að því að undirbúningur og útboð geti farið fram á þessu ári og að tilraunastrandsiglingar gætu þá hafist í byrjun næsta árs.

Starfshópur um strandsiglingar skilaði tillögum til innanríkisráðherra 24. janúar.

Starfshópinn skipuðu: Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarhafnar, formaður, Sigurður Örn Guðleifsson, lögfræðingur innanríkisráðuneytinu, Pétur Ólafsson, skrifstofustjóri Akureyrarhöfn, Ögmundur Hrafn Magnússon, lögfræðingur fjármálaráðuneytinu, Kristján Helgason, deildarstjóri hafnasviðs hjá Siglingastofnun Íslands,  Unnar Jónsson, rekstrarfræðingur og Etna Sigurðardóttir hjá Vegagerðinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum