Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2012 Forsætisráðuneytið

Morgunverðarfundur um tjáningarfrelsi og lýðræði

Innanríkisráðuneytið efnir til annars fundar í fundarröð um mannréttindamál föstudaginn 27. janúar næstkomandi klukkan 8.30 til 10 í Iðnó í Reykjavík. Efni fundarins verður tjáningarfrelsi og lýðræði.

Erindi flytja Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, og er heiti þess: Ógna rangfærslur og hlutdrægar fréttir lýðræðinu? Björg Eva Erlendsdóttir, blaðamaður nefnir erindi sitt: Segðu mér sömu söguna aftur og Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl. fjallar um Tjáningarfrelsi í tengslum við ákvæði hegningarlaga um meiðyrði. Í framhaldinu gefst kostur á fyrirspurnum og umræðum.

Innanríkisráðuneytið hóf fyrir áramót fundaröð um mannréttindamál í tengslum við mótun landsáætlunar í mannréttindum sem nú stendur fyrir dyrum. Fyrsti fundurinn var haldinn 9. desember í tilefni af alþjóðlega mannréttindadeginum. Fundarröðin er hluti af viðleitni ráðuneytisins til að tryggja að  stefnumótun í svo margþættum og mikilvægum málaflokki sem mannréttindi eru eigi sér ekki aðeins stað innan veggja ráðuneyta heldur í samstarfi og í beinum tengslum við hagsmunaaðila, fræðasamfélag og síðast en ekki síst almenning.

Fundurinn er öllum opinn og er aðgangur ókeypis. Hægt verður að kaupa léttar morgunverðarveitingar á staðnum. Þátttakendur eru beðnir að skrá sig með tölvupósti á netfangið: [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum