Hoppa yfir valmynd
7. desember 2011 Forsætisráðuneytið

Niðurstöður í Universal Periodic Review ferli Íslands hjá mannréttindaráði SÞ til umræðu

Innanríkisráðuneytið hefur ákveðið að birta drög að niðurstöðum úr Universal Periodic Review ferli Íslands hjá mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi.

Í skjalinu er gerð grein fyrir helstu atriðum sem komu fram við fyrirtöku Íslands, auk þess sem gerð er grein fyrir athugasemdum og tillögum sem Íslandi bárust við fyrirtökuna. Tilmælin lutu að fjölmörgum þáttum í íslensku samfélagi: Fangelsismálum, kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, hagsmunum viðkvæmra hópa, hlutverki þjóðbundinnar mannréttindastofnunar og kynbundnu ofbeldi svo eitthvað sé nefnt.

Vinnuhópur á vegum innanríkisráðuneytisins og fleiri ráðuneyta vann að gerð skýrslu Íslands vegna fyrirtökunnar og var í því ferli lögð mikil áhersla á samráð við frjáls félagasamtök, stofnanir og almenning.

Í framhaldi af fyrirtöku Íslands í október tóku íslensk stjórnvöld afstöðu til hluta þeirra athugasemda og tilmæla sem sett voru fram. Vinna stendur nú yfir við að meta með hvaða hætti skuli brugðist við þeim tilmælum sem útaf standa, en þau falla undir lið 63 í meðfylgjandi skjali. Vonir standa til þess að frjáls félagasamtök og allir áhugasamir nýti tækifærið til þess að koma sjónarmiðum sínum varðandi afstöðu Íslands á framfæri við vinnuhópinn á fundinum á föstudaginn. Drögin verða einnig send yfir 60 aðilum sem leitað var til við gerð skýrslu Íslands síðastliðið vor.  

Ráðgert er að skila lokaafstöðu til mannréttindaráðs í febrúar á næsta ári eftir þá vinnu sem nú stendur yfir en lokaafstaða íslenskra stjórnvalda verður kynnt mannréttindaráðinu í mars á næsta ári. Í máli innanríkisráðherra við fyrirtökuna kom fram að við framkvæmd tillagnanna á Íslandi muni aðkoma frjálsra félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila skipta mikla máli.

Næstu skýrslu Íslands í UPR ferlinu skal skila til mannréttindaráðs SÞ árið 2016 og þá mun kerfisbundið verða fjallað um hvernig íslenskum stjórnvöldum hefur tekist að uppfylla skuldbindingar sínar á grundvelli afstöðu Íslands sem kynnt verður í mars.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum