Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2011 Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um kirkjugarða og fleira til umsagnar

Drög að lagafrumvarpi til breytinga á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993 með síðari breytingum eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Með frumvarpinu er styrkt lagaumgjörð er snertir greftrun, líkbrennslu og fleira. Unnt er að senda umsagnir á netfangið [email protected] til 14. nóvember nk.

Frumvarp þetta var samið á grundvelli tillagna nefndar sem skipuð var af þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra til að gera úttekt á lögum um kikjugarða, greftrun og líkbrennslu og leggja fram tillögur til úrbóta. Frumvarpið var lagt fram á 135. og 136. löggjafarþingi en var ekki afgreitt á þeim þingum.

Meginbreytingarnar eru eftirfarandi:

1.      Lagt er til að heiti laganna verði breytt þannig að orðið „grafreitur“ komi þar fyrir. Kirkjugarðar eru einungis garðar þar sem kirkju er að finna, en oft hagar þannig til að grafreitir eru fjarri sjálfri kirkjunni.

2.      Lagt er til að flytja skuli lík í líkhús eftir að læknir hefur úrskurðað mann látinn og að tilgreina skuli hámarksdagafjölda sem megi líða frá andláti til útfarar, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Einnig verði óheimilt að greftra lík eða brenna nema það sé lagt í kistu og hjúpað líkklæðum eða öðrum klæðnaði, sbr. 3. gr. frumvarpsins.

3.      Bætt verði við kafla í lögin um flutning kistu eða duftkers milli landshluta eða landa, sbr. 4. gr. frumvarpsins.

4.      Í nýjum kirkjugörðum verði skylt að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reitum fyrir önnur trúarbrögð en kristin, sbr. 5. og 6. gr. frumvarpsins. Auk þess verði bætt við ákvæði um sérstakan minningarreit við kirkju vegna horfinna eða drukknaðra er skuli njóta sömu helgi og legstaður.

5.      Sérstakur kafli verði um útför og þá sem annast útfarir og veita þjónustu við látna og aðstandendur þeirra, sbr. 7. gr. (e–i-lið) frumvarpsins. Vakin er athygli á að lagt er til að hugtakið „útför“ verði skilgreint, svo og að ákvæði verði um virkt eftirlit með útfararstofum.

6.      Heimilt verði að grafa kistu ungbarns í leiði, sbr. 18. gr. frumvarpsins.

7.      Heimilt verði að gera þjónustusamninga við Kirkjugarðasamband Íslands, sbr. 26. gr. frumvarpsins.

8.      Lagt er til að sýslumaður veiti leyfi til þess að ösku verði dreift yfir öræfi eða sjó, enda liggi fyrir ótvíræð ósk hins látna þar að lútandi.

9.      Lagt er til að þeim sem komið hafa sér upp líkgeymslu sé heimilt að innheimta gjald til að standa straum af kostnaði við rekstur hennar, þ.á m. við umsjón og eftirlit. Tekjur af líkhúsgjaldi koma ekki til frádráttar því framlagi sem kirkjugarðar fá úr ríkissjóði á fjárlögum á grundvelli samkomulags um framlag úr ríkissjóði til starfsemi kirkjugarða.

10.  Lagt er til að opinberir aðilar megi einir reka líkhús. Einkaaðilum sem fengið hafa leyfi skv. 14. gr. laganna til að reka útfararþjónustu yrði þó heimilt að reka líkhús sé það gert á grundvelli samnings við opinbera aðila. Einkaaðilar myndu í slíkum tilfellum reka umrædda þjónustu í umboði opinberra aðila.

Lagt er til að lögin taki þegar gildi, en ákvæði er varðar heimild til þess að reka líkhús tekur eigi gildi fyrr en 1. janúar 2013. Nauðsynlegt þykir að hafa tiltekinn aðlögunartíma hvað þetta ákvæði varðar fyrir þá einkaaðila sem þegar starfrækja líkhús til að gera samninga við opinbera aðila þar að lútandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum