Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2011 Innviðaráðuneytið

Norrænir samgönguráðherrar funda í Reykjavík

Samgönguráðherrar Norðurlandanna og starfsbræður þeirra frá Eystrarsaltsríkjunum sátu fund í Reykjavík í dag þar sem þeir ræddu ýmis sameiginleg samgöngumálefni. Næsti norræni ráðherrafundur verður haldinn í Danmörku.

Frá fundi norrænna samgönguráðherra í Reykjavík í dag.
Frá fundi norrænna samgönguráðherra í Reykjavík í dag.

Auk Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra tóku þátt í fundinum ráðherrarnir Merja Kyllönen frá Finnlandi, Catharina Elmsäter-Svård frá Svíþjóð, Juhan Parts frá Eistlandi, Veronica Tornroos frá Álandseyjum og Arunas Staras frá Litháen. Auk þeirra sátu fundinn fulltrúar samgönguráðuneyta Danmerkur, Noregs og Lettlands.

Norrænir samgönguráðherrar og aðrir fulltrúar ráðuneytanna.

 

 

 

 

 

Meðal umræðuefna á fundinum var umfjöllum um áhrif eldsumbrota á flugumferð og hvernig bregðast megi við og hvernig háttað er stjórnun flugumferðar þegar öskuský trufla. Valdís Ásta Aðalsteinsdóttir og Reynir Sigurðsson frá Flugmálastjórn ásamt Ásgeiri Pálssyni frá Isavia og Árna Snorrasyni veðurstofustjóra fræddu fundarmenn um málefnið og í framhaldinu urðu nokkrar umræður. Eftir fundinn heimsóttu fundarmenn flugstjórnarmiðstöðina á Reykjavíkurflugvelli og kynntu sér starfsemi hennar.

Þá var fjallað um norræna aðgerðaáætlun um umhverfisvæna samgöngustefnu en  Norðurlandaráð samþykkti á fundi í Helsinki árið 2008 tillögu sem lögð hefur verið fyrir ríkisstjórnir Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Gerir hún meðal annars ráð fyrir að ríkin auki samvinnu sína á sviði rannsókna, leggi áherslu á notkun umhverfisvænna flutningaleiða og hvetji til aukinna flutninga á sjó og með járnbrautum.

Við lok fundarins undirrituðu ráðherrar Noregs, Finnlands, Lettlands og Eistlands yfirlýsingu um áframhaldandi þróun North European Functional Airspace Block (NEFAB), starfræns flugleiðsöguumdæmi landanna, en umdæmið mun byggja á reglum Evrópusambandsins og stefna að aukinni samræmingu og hagræðingu í flugleiðsöguþjónustu landanna. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum