Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2011 Forsætisráðuneytið

Skýrsla SÞ um mannréttindamál á Íslandi tekin fyrir í október

Staða mannréttindamála á Íslandi verður tekin fyrir á fundi á vegum Sameinuðu þjóðanna í Genf 10.-12. október en samtökin standa nú fyrir úttekt á mannréttindamálum í aðildarríkjum sínum. Skýrsla starfshóps Íslands var send SÞ í síðasta mánuði og mun sendinefnd Íslands svara spurningum um efni hennar á fundinum.

Umfjöllun um mannréttindamál á Íslandi á vef SÞ.
Umfjöllun um mannréttindamál á Íslandi á vef SÞ.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra fer fyrir sendinefndinni og auk fulltrúa innanríkisráðuneytis eru í henni fulltrúar frá öðrum ráðuneytum og fastanefnd Íslands í Genf.

Bæði lof og last um stöðu og þróun mannréttindamála

Hluti af úttektarferlinu felur í sér útgáfu skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna þar sem lagt er mat á stöðu og þróun mannréttindamála á Íslandi síðustu árin. Er hún samsett úr athugasemdum ýmissa nefnda og ráða sem starfa á grundvelli mannréttindasáttmála og mannréttindasamninga á vegum SÞ og lúta að Íslandi. Þar er að finna gagnrýna umfjöllun um framkvæmd mannréttindamála hérlendis, yfirlit yfir skil á úttekum á framkvæmd samninga og hvatningu til breytinga á regluverki. 

Í skýrslunni er meðal annars fjallað um athugasemdir sem hafa komið fram varðandi lögfestingu mannréttindasáttmála í íslenska löggjöf, skort á skilgreiningum, til dæmis á hugtakinu pyntingar og að ekki sé bannað að nota sönnunargögn í refsimálum sem fengin eru með pyntingum. Ítrekaðar eru athugasemdir um að engin mannréttindastofnun sé starfrækt á Íslandi í samræmi við Parísarreglur SÞ.

Í skýrslunni er framtaki íslenskra stjórnvalda á ýmsum sviðum fagnað, m.a. varðandi íslenska aðgerðaáætlun gegn mansali og móttöku Íslands á flóttamönnum sem falla undir skilgreininguna „konur í hættu” á vegum flóttamannastofnunar SÞ sem stofnunin telur til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi. Jafnframt var nýlegum breytingum á regluverki sem að mati mannréttindafulltrúa SÞ hafa bætt réttarstöðu samkynhneigðra, styrkt tjáningarfrelsi og sjálfstæði dómstóla, fagnað. 

Þá fylgir einnig skýrsla með samantekt athugasemda ýmissa aðila, sem eru annars vegar íslenskir og hins vegar samantekt athugasemda nefnda á vegum Evrópuráðsins sem heimsótt hafa landið undanfarin misseri. Í þeirri skýrslu er lagabreytingum í þágu jafnra réttinda samkynhneigðra sérstaklega fagnað og þær taldar til fyrirmyndar í alþjóðlegu samhengi. Þar er einnig fjallað um réttindi kvenna, meðal annars launamisrétti, nafnleynd dæmdra vændiskaupenda, aðstöðu barna í fangelsum, lágt hlutfall sakfellingardóma í nauðgunarmálum, stöðu lífsskoðunarfélaga og trúfélaga, lækkun lífeyrisgreiðslna og takmarkaða möguleika á atvinnumarkaði fyrir fólk sem er komið yfir miðjan aldur, vinnulöggjöf, skort á heildstæðri stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks, stuðning við börn sem þurfa sérstaka aðstoð, málefni útlendinga í tengslum við réttindi á vinnumarkaði, ríkisborgararétt og réttindi hælisleitenda og flóttamanna.

Fyrirtakan í Genf 10.-12. október verður í beinni útsendingu á netinu á eftirfarandi slóð: http://www.un.org/webcast/unhrc/index.asp.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum