Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2011 Innviðaráðuneytið

Vinnuhópur ICAO fundar á Íslandi um notkun flugrita

Vinnuhópur á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO, sem fjallar um notkun og rannsóknir á flugritum í tengslum við flugslys og alvarleg flugatvik, Flight Recorder Panel, heldur fund sinn í innanríkisráðuneytinu í dag og næstu daga. Verkefni hópsins er að fjalla um hvernig nýta má betur flugrita og hvort og hvaða umbætur eru nauðsynlegar á gerð þeirra.

Starfshópur á vegum ICAO fjallar um notkun flugrita á fundi í innanríkisráðuneytinu.
Starfshópur á vegum ICAO fjallar um notkun flugrita á fundi í innanríkisráðuneytinu.

Rannsóknarnefnd flugslysa á Íslandi (RNF) hafði frumkvæði að því að halda fundinn hér á landi og innanríkisráðuneytið hýsir fundinn en um 20 sérfræðingar starfa í hópnum. Þormóður Þormóðsson, rannsóknarstjóri hjá RNF, og Þorkell Ágústsson aðstoðarrannsóknarstjóri eru fulltrúar Íslands.

Á fundinum eru saman komnir helstu sérfræðingar heims í málefnum flugrita og eru frá ýmsum löndum og fundinn sitja einnig fulltrúar alþjóðasamtaka í flugi svo sem IATA, samtaka flugmannafélaga, flugvélaframleiðenda og fleiri. Gagnasöfnun flugrita er meðal þýðingarmestu atriða er varða rannsókn flugslysa ef enginn er til frásagnar en þeir geta gefið margháttaðar upplýsingar um hvað hefur gerst þegar slys á sér stað og því eru þeir einnig mikilvægir í því skyni að auka öryggi í flugi.

Starfshópur á vegum ICAO fjallar um notkun flugrita á fundi í innanríkisráðuneytinu.

Á fundinum er meðal annars rætt hvernig flugritar eru notaðir, hvernig hægt er að leita þá uppi þegar slys verður, hvort gera á þá þannig úr garði að unnt sé að skjóta þeim úr flugvél sem hrapar, hvort skilyrða eigi flugrita í litlar flugvélar og hvort taka eigi upp myndir í stjórnklefa. Tillögur vinnuhópsins verða síðan lagðar fyrir ICAO sem metur hvort þær eiga erindi í alþjóðareglur varðandi flugrita.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum