Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2011 Innviðaráðuneytið

Margt hefur verið gert en mörgu ólokið

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti sér í vikunni vegamál á Vestfjörðum og átti fundi með fulltrúum sveitarstjórna í fjórðungnum. Einnig heimsótti hann lögreglustöðvar á svæðinu og fundaði með sýslumanninum á Ísafirði. Ráðherra segir mörgum stórverkefnum lokið en einnig mörgum ólokið.

Vestfjarðavegi verður breytt við Skálanes.
Vestfjarðavegi verður breytt við Skálanes.

Með ráðherra í för voru Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og fleiri starfsmenn ráðuneytisins og frá Vegagerðinni þeir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri og Magnús Valur Jóhannsson, svæðisstjóri Norðvestursvæðis. Á Hómavík var starfsstöð Vegagerðarinar heimsótt en á mótum Djúpvegar og Geirmundastaðavegar við botn Steingrímsfjarðar er ráðgert að leggja rúmlega tveggja km langan veg við botn fjarðarins og norðan við hann og smíðuð verður ný tveggja akreina brú yfir Staðará. Stefnt er að því að bjóða út framkvæmdina síðsumars. Þá verður síðsumars boðin út smíði tveggja nýrra brúa á Djúpvegi í Álftafirði um Seljalandsós og Seljalandsá og er það verkefni fjármagnað af viðbótarframlagi í átaki í vegamálum á Vestfjörðum samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Því verkefni tilheyrir einnig smíði þriggja annarra brúa, þ.e. á Vestfjarðavegi yfir árnar Raknadalsá og Hlaðseyrará í Patreksfirði og Hrísnesá á Barðaströnd. Alls verður veitt 350 milljónum króna til þessara verkefna.

Innanríkisráðherra á fundi hjá bæjarstjórum Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

Hringtenging mikilvæg

Á Ísafirði átti ráðherra fund með Daníel Jakobssyni, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, og Elíasi Jónatanssyni, bæjarstjóra Bolungarvíkur, auk nokkurra bæjarfulltrúa. Þar kom fram ánægja  sveitarstjórnarmanna með nýafstaðnar stórframkvæmdir svo sem veginn um Arnkötludal eða Þröskulda, framkvæmdir á Djúpvegi og Bolungarvíkurgöng. Bent var á að vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum yrði að fá forgang og að samstaða væri meðal sveitarfélaga og stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga um það. Sögðu bæjarfulltrúarnir einnig mikilvægt að horfa fram í tímann og draga ekki gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og gerð nýs vegar um Dynjandisheiði. Sögðu þeir hringtengingu um Vestfjarðakjálkann mikilvæga bæði fyrir ferðaþjónustu og atvinnu- og skólasókn.

Hrafnseyrarferðin er erfið yfirferðar á vetrum og er lengi lokuð.Á ferð sinni milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar gafst ráðherra færi á að skoða Hrafnseyrarheiði sem er erfið yfirferðar á vetrum og ófær um langa hríð enda fer vegurinn hæst í um 552 m hæð og er krókóttur og brattur. Heiðin er og varasöm í smjómokstri vegna snjóflóðahættu. Einnig var ekið um Dynjandisheiði þar sem fyrir liggur að leggja þarf nýjan veg en veglína hefur ekki verið ákveðin. Vegurinn var opnaður árið 1959 og liggur á tveimur stöðum í yfir 500 m hæð.

Leggja áherslu á láglendisveg

Á Patreksfirði hélt ráðherra fund með bæjarfulltrúum frá Vesturbyggð og Tálkafirði þar sem Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps, fóru fyrir sínu fólki. Fögnuðu bæjarfulltrúar því að ráðherra skyldi kynna sér samgöngumálin á Vestfjörðum og lögðu áherslu á að ráðist yrði í framkvæmdir til að ljúka tengingu byggðarlaga sem í dag nytu ekki almennilegra samgangna. Rætt var um stöðuna varðandi vegagerð í Gufudalssveit og Múlasveit og lögðu bæjarfulltrúar áherslu á það sjónarmið að nýr heilsársvegur skuli lagður um láglendið og með þverun fjarða. Aðeins með slíkum vegi væri unnt að ná viðunandi og öruggum vegi sem halda mætti opnum allt árið. Sögðu þau brýnt að þoka málinu áfram og fá ákvörðun um næstu skref.

Ráðherra fundaði með sveitarstjórnarfólki frá Vesturbyggð og Tálknafirði.

Fram kom í máli ráðherra að til að fjalla um málið áfram yrði skipaður samráðshópur þeirra aðila sem málið varðar, þ.e. sveitarstjórna, náttúruverndarsamtaka, Vegagerðar og ráðuneytis og hefur þegar verið ákveðið að hópnum skuli stefnt saman 11. ágúst næstkomandi.

Borkjarnar úr Skálanesi skoðaðir.Á þriðja degi ferðarinnar fór ráðherra ásamt fylgdarliði um Vestfjarðaveg frá Patreksfirði og í Bjarkalund. Á vesturhluta þeirrar leiðar hafa nýir vegarkaflar verið lagðir og unnið er að frekari framkvæmdum. Þannig var í fyrra tekinn í notkun nýr kafli milli Vatnsfjarðar og Kjálkafjarðar, unnið er um þessar mundir að lagningu nýs kafla við Skálanes þar sem vegurinn er nú lagður ofan við bæinn en ekki gegnum bæjarhlaðið og verður þeim kafla lokið í haust og fyrirhugað er að bjóða út í haust kafla milli Kjálkafjarðar og Vattarfjarðar sem er 16-19 km langur eftir því hvort Mjóifjörður verður þveraður eða ekki.

 

Óvissa um leiðarval

Umfangsmesta framkvæmdin á Vestfjarðavegi er nýr vegur milli Þorskafjarðar og Skálaness, sem er milli Kollafjarðar og Gufufjarðar en ekki hefur náðst niðurstaða í hvar leggja skuli veginn. Í dag liggur hann meðal annars um tvo erfiða hálsa, Ódrjúgsháls og Hjallaháls og er einn kostur að endurbyggja þá vegi en annar kostur og sá sem Vegagerðin hefur mælt með og sveitarfélög á svæðinu einnig að fara með láglendisveg um utanverðan Þorskafjörð og þvera Djúpafjörð og Gufufjörð. Þessi leið fékk ekki samþykki Skipulagsstofnunar en Vegagerðin kærði þá niðurstöðu og þáverandi umhverfisráðherra heimilaði vegalagninguna. Sá úrskurður var kærður og enduðu þau málaferli með því að Hæstiréttur dæmdi hann ólögmætan.

Fyrir liggur að ákveða þarf hvernig vegagerð um þetta svæði verður háttað og á fundi í Bjarkalundi síðastliðinn fimmtudag með fulltrúum sveitarstjórna Reykhólahrepps, Vesturbyggðar og Tálknafjarðar ásamt samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga tilkynnti innanríkisráðherra um skipan áðurnefnds samráðshóps til að leggja fram tillögur um málsmeðferð. Í framhaldinu er síðan gert ráð fyrir að framkvæmdin verði sett í samgönguáætlun sem leggja á  fyrir Alþingi í haust. Á fundinum í Bjarkalundi lagði ráðherra áherslu á að allir þyrftu að koma að þessu máli með opnum huga og að brýnt væri að fá fram öll sjónarmið og horfa á alla kosti um leiðarval. Samráðsvettvangur myndi leggja fram tillögur en ákvörðun væri Alþingis, álit hópsins hlyti þó að vega þungt.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum