Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2011 Dómsmálaráðuneytið

Starfshópur stofnaður um málefni útlendinga utan EES

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur sett á fót starfshóp sem fjalla skal um málefni útlendinga utan evrópska efnahagssvæðisins. Í starfshópnum sitja tveir fulltrúar innanríkisráðherra, auk formanns, tveir fulltrúar velferðarráðherra og fulltrúi utanríkisráðherra.

Verkefni starfshópsins verður að móta stefnu fyrir stjórnvöld í málefnum útlendinga utan EES sem leita hælis eða óska eftir dvöl á Íslandi. Hópnum er gert að hafa það að leiðarljósi að tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda á málefnum útlendinga utan EES hér á landi. Í því skyni skal horft til málsmeðferðar í heild, sérstaklega með tilliti til þess tíma sem afgreiðsla mála tekur og áhrifa þess á umsækjendur um hæli og dvalarleyfi. Skal skoðun hópsins taka til veitinga dvalarleyfa sem atvinnuleyfa og eftir atvikum annarra lagafyrirmæla sem beinlínis varða málefni útlendinga utan EES, óháð því hvar viðkomandi verkefni er vistað í stjórnsýslunni. Hópnum er jafnramt heimilt að gera tillögur til breytinga á gildandi lögum um möguleika útlendinga utan EES til að setjast að hér á landi.

Starfshópnum er uppálagt að leita sem víðast fanga við undirbúning að tillögugerð sinni og eiga náið samráð við stofnanir og félagasamtök er hafa með málefni útlendinga að gera, svo sem Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, Rauða kross Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Í starfshópnum eiga sæti: Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra sem jafnframt er formaður hópsins, Haukur Ólafsson utanríkisráðuneyti, Ingvar Sverrisson og  Linda Rós Alfreðsdóttir, bæði frá velferðarráðuneyti, María Rún Bjarnadóttir og Rósa Dögg Flosadóttir, sérfræðingar í innanríkisráðuneyti.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum