Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2011 Innviðaráðuneytið

Alls eru 44 loftferðasamningar í gildi

Staða loftferðasamninga Íslands við önnur ríki var rædd í vikunni á fundi í innanríkisráðuneytinu og sátu fundinn fulltrúar nokkurra flugrekenda, utanríkisráðuneytisins og Flugmálastjórnar auk fulltrúa innanríkisráðuneytis. Alls hefur Ísland gert 44 loftferðasamninga við erlend ríki.

Fundur með flugrekendum um loftferðasamninga.
Fundur með flugrekendum um loftferðasamninga.

Kynnt var greinargerð um áhrif inngöngu í ESB á aðild að loftferðasamningum.  Loftferðasamningar ESB ríkjanna eru ýmist tvíhliða, opnir eða láréttir (horizontal agreement) samningar og gangi Ísland í ESB fengist aðild að loftferðaréttindum allra láréttra samninga aðildarríkja Evrópusambandsins. Einnig hefur ESB gert nokkra opna samninga svokallaða  “open skies” samninga en samþykki ESB ríkjanna og samningsríkis þarf fyrir aðild Íslands að þeim samningum ESB. Nýjasti áfanginn á þessu sviði er að Ísland hefur nýlega gerst fullgildur aðili að “open skies” loftferðasamningi ESB-ríkja við Bandaríkin og er það einnig í gegnum EES aðildina.

Loftferðasamningar kveða á um tiltekin réttindi til handa flugfélögum varðandi áætlunar- eða leiguflug með farþega og/eða frakt og eru þeir þannig grundvöllur fyrir viðskipti á sviði flutninga og ferðaþjónustu viðkomandi aðila. Þá geta loftferðasamningar skipt máli varðandi verkefni íslenskra flugrekenda fyrir hönd annarra flugfélaga þótt ekki sé um að ræða flug á milli Íslands og viðkomandi ríkis.

Fundur með flugrekendum um loftferðasamninga.

Utanríkisráðuneytið annast formlega samninga við ríki varðandi loftferðaréttindi og faglega aðkomu hafa innanríkisráðuneytið og Flugmálastjórn. Þá hafa einstakir flugrekendur yfirleitt fylgst með samningagerð þegar rætt er við ríki sem þau hafa hug á hefja flugsamskipti við.

Meðal þjóða sem Ísland hefur átt í viðræðum við um loftferðasamninga eða breytingar á samningum eru til dæmis Kanada, Japan og Mexíkó og áhugi er hjá íslenskum flugfélögum um að ná samningum við lönd eins og Kóreu, Saudi-Arabíu, Bangladess og fleiri. Í haust er fyrirhugaður alþjóðlegur fundur á Indlandi þar sem mörg ríki koma saman til viðræðna um loftferðasamninga en ekki er ákveðið enn hvort Ísland tekur þátt í þeim fundi. Slíkir fundir hafa verið haldnir áður og þykir slíkt fyrirkomulag hentugt þar sem unnt er að þoka áfram málum við nokkur ríki í senn á sama stað og tíma.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum