Hoppa yfir valmynd
25. maí 2011 Dómsmálaráðuneytið

Verulegur kostnaður verður vegna hreinsunarstarfa

Á reglulegum fundi í samhæfingarstöð Almannavarna í dag var sem fyrr farið yfir stöðuna vegna eldgossins í Grímsvötnum en þar hefur virkni verið lítil í dag. Fram kom á fundinum að kostnaður við hreinsunarstarf, einkanlega í Skaftárhreppi, verður verulegur.

Í Hátúni í Landbroti við Kirkjubæjarklaustur sunnudaginn 22. maí 2011.
Í Hátúni í Landbroti við Kirkjubæjarklaustur sunnudaginn 22. maí 2011.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sat fundinn og þakkaði fulltrúum Almannavarna, lögreglu og björgunarliðs fyrir að hafa vakað yfir þessu verkefni allt frá fyrstu stundum eldgossins. Verið er að safna upplýsingum um umfang aðgerða sem grípa þarf til á næstunni vegna áhrifa gosöskunnar, hreinsunarstarf, hugsanlegar aðgerðir til að forðast heilsutjón og aðgerðir vegna búfénaðar en auk kostnaðar sem þegar er orðinn vegna neyðarviðbragða er ljóst að verulegur kostnaður verður vegna hreinsunarstarfa, mestur í Skaftárhreppi. Lokið verður við skýrslu vegna málsins á morgun og hún síðan lögð fyrir ríkisstjórnarfund á föstudag.

Aska sem féll í nágrenni Víkur, í Suðursveit og Öræfum hefur mikið til fokið burtu en mikið hreinsunarstarf bíður í Skaftárhreppi sem nú er í undirbúningi. Lagt verður kapp á hreinsun þeirra 219 íbúðarhúsa sem hreinsa þarf, elliheimilis, skóla og leikskóla og síðan útihúsa á sveitabæjum. Tankbílar víða að eru á leið á svæðið og verða notaður við hreinsunarstarfið.

Á fundinum í samhæfingarstöðinni greindu jarð- og veðurvísindamenn frá gangi gossins og veður- og öskudreifingaspá næsta sólarhring. Gosvirkni hefur verið lítil síðasta hálfa sólarhringinn en stöku gusur hafa komið upp og leggur einkanlega frá þeim gufustróka en lítil aska virðist berast úr gígnum.

Hringvegurinn var opnaður um kvöldmatarleytið í gær og lögreglan sinnir áfram gæslu á svæðinu og hafa Almannavarnir bent fólki á að vera ekki á ferð við gosstöðvarnar nema í nokkurra km fjarlægð. Ríkislögreglustjóri mun meta í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli og eftir að hafa ráðfært sig við vísindamenn hvort og hvenær hugsanlega er ástæða til að létta á viðbragðsstigi en neyðarstig hefur gilt frá því að gosið hófst.

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum