Hoppa yfir valmynd
15. mars 2011 Dómsmálaráðuneytið

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst á morgun, 16. mars 2011

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar 9. apríl hefst á morgun, miðvikudaginn 16. mars, innan lands og utan. Kjósanda sem ekki getur kosið á kjördag, er heimilt að greiða atkvæði utan kjörfundar frá og með þeim degi til kjördags.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram á eftirfarandi stöðum:

Hjá sýslumönnum um allt land, á aðalskrifstofum eða í útibúum þeirra. Þá getur sýslumaður einnig ákveðið að atkvæðagreiðsla á aðsetri embættis fari fram á sérstökum stað utan aðalskrifstofu svo og að atkvæðagreiðsla fari fram á öðrum stað í umdæmi hans. Lista yfir sýslumenn og upplýsingar um þá er að finna hér.

Erlendis: Í öllum sendiráðum Íslands og aðalræðisskrifstofum Íslands í New York,  Winnipeg, og Þórshöfn í Færeyjum. Einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar eftir samkomulagi hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis. Sjá nánar hér á vef utanríkisráðuneytisins.

Sjúkrahúsum, fangelsum, dvalar- og vistheimilum. Kjósanda, sem er til meðferðar á sjúkrahúsi eða vistmaður þar, á dvalarheimili aldraðra eða stofnun fyrir fatlaða, er heimilt að greiða atkvæði á stofnuninni. Með sama hætti fer um vistmann fangelsis. Slík atkvæðagreiðsla skal fara fram á þeim tíma sem kjörstjóri ákveður, á sjúkrahúsi sem næst kjördegi, að höfðu samráði við stjórn stofnunar. Hún má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 3 vikum fyrir kjördag. Sjá nánar um utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra (PDF).

Heimahúsi. Kjósanda, sem ekki getur sótt kjörfund á kjördegi vegna sjúkdóms, fötlunar eða barnsburðar, er heimilt að greiða atkvæði í heimahúsi nema hann eigi kost á að greiða atkvæði á stofnun, sbr. framangreint. Ósk um að greiða atkvæði í heimahúsi skal vera skrifleg og studd vottorði lögráða manns um hagi kjósandans. Slík atkvæðagreiðsla má þó ekki fara fram fyrr en í fyrsta lagi 3 vikum fyrir kjördag.
Sjá nánar um
utankjörfundaratkvæðagreiðslu sjúkra (PDF)
Umsóknareyðublað um að fá að greiða atkvæði í heimahúsi (PDF)
.

Kjörstjóri auglýsir hvar og hvenær atkvæðagreiðsla getur farið fram, með þeim hætti sem venja er á hverjum stað að birta opinberar auglýsingar.

Sjá nánar um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar hér á kosningavef innanríkisráðuneytisins, kosning.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum