Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2011 Innviðaráðuneytið

Rætt um stöðu innanlandsflugs á Alþingi

Fjallað var um stöðu innanlandsflugs í umræðum utan dagskrár á Alþingi í dag.

Málshefjandi var Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og til svara var Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.

Frá Keflavíkurflugvelli
Frá Keflavíkurflugvelli

Einar K. Guðfinnsson lýsti áhyggjum vegna þróunar í innanlandsflugi, hækkandi gjöldum og  samdrætti í umsvifum. Sagði hann það vandséð að það að draga úr styrkjum til innanlandsflugs samræmdist stefnu ríkisstjórnar um eflingu almenningssamgangna, það skyti skökku við að leggja til auknar álögur á innanlandsflug um leið og tekjur drægjust saman og til dæmis eldsneytiskostnaður færi hækkandi. Þingmaðurinn taldi að hækkanir sem Isavia, rekstrarfélag flugvalla á Íslandi, yrði að standa undir næmu um 320 milljónum króna og við það bættust síðan kolefnisgjald á eldsneyti í innanlandsflugi og gjald á ferðaþjónustuna. Sagði hann samkeppnishæfni landsbyggðar minnka við slíkar álögur.

Ögmundur Jónasson sagði að samdráttur og niðurskurður bitnaði á þessari atvinnugrein, til samgöngumála hefðu árið 2009 runnið um 34 milljarðar króna en í ár væru áætlaðir um 20 milljarðar í málaflokkinn. Hagræðingarkrafa á Isavia næmi um 400 milljónum króna og því yrði að ná með aðhaldi, minni þjónustu og aukinni tekjuöflun. Ráðherra sagði brýnt að verja innanlandsflugið og því yrði haldið áfram að styrkja flug á ákveðnum leiðum þótt felldir hefðu verið niður styrkir til flugs til Vestmannaeyja og Sauðárkróks. Ánægjulegt væri að því flugi hefði samt sem áður verið haldið áfram. Með kerfisbreytingu á þann veg að fella niður skatta og taka upp notendagjöld væri stefnt að því að gera rekstur Keflavíkurflugvallar sjálfbæran en reynt yrði að hlífa innanlandsfluginu.

Þingmennirnir Guðmundur Steingrímsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Siv Friðleifsdóttir og Mörður Árnason tóku og þátt í umræðunni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum