Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2011 Innviðaráðuneytið

Ungverjaland leggur meðal annars áherslu á samskipta- og samgöngumál

Ungverjaland tók við formennsku fyrir næsta hálfa árið í ráðherraráði Evrópusambandsins um síðustu áramót. Ungverjaland leggur áherslu á nokkur mikilvæg samskipta- og samgöngumál í formennskutíð sinni í ESB.

Í samgöngumálum leggur Ungverjaland áherslu á að vinna að sjálfbærum og öruggum samgöngum. Lögð er áhersla á að klára umræður um nýja samgöngustefnu sambandsins fyrir árin 2011-2020, White Paper on the European Union's transport policy between 2011-2020 og þá í samhengi við endurskoðun tilskipunarinnar um TEN-T, Trans European Networks – Transport. Þar munu Ungverjar leggja áherslu á bætt afköst samgöngukerfisins, aðgerðir sem stuðla að umhverfisvænni samgöngum og samþættingu samgöngumáta.

Ungverjar leggja áherslu á að leiða til lykta umræðuna um Eurovignette-tilskipunina en hún mun auðvelda aðildarríkjum að innheimta gjöld á umferð fyrir ýmsan ytri kostnað eins og umhverfiskostnað. Þá mun verða lögð áhersla á að semja reglur um stjórnsýsluþjónustu GALILEO-leiðsögukerfisins.

Í samskiptamálum mun forsætið leggja áherslu á öruggara tíðniróf með betri afköstum sem nýtt verði til efnahagslegs vaxtar. Þar mun verða lögð áhersla á að útfæra áætlun um stafrænt samfélag, Digital Agenda, Haldin verður ráðstefna um málið þar sem allir hagsmunaaðilar koma saman. Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnin muni gefa út frammistöðumat með upplýsingum um stöðu aðildarríkja gagnvart áætluninni þar sem m.a. verði settir fram fyrstu mælikvarðarnir á stöðu ríkja í þessu efni.

Þá verður lögð áhersla á öryggi og vernd fjarskiptainnviða til að koma í veg fyrir að árásir á fjarskiptainnviði Evrópu hafi skaða í för með sér. Einnig verður unnið að endurskipulagningu Fjarskipta- og upplýsingaöryggisstofnunar Evrópu.

Einnig verður áfram unnið að gerð fyrstu Evrópuáætlunarinnar um nýtingu tíðnirófsins og reynt til þrautar að ná samkomulagi um hana.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum