Hoppa yfir valmynd
17. október 2008 Dómsmálaráðuneytið

Nefnd á vegum dómsmálaráðherra leggur til stofnun millidómstigs í sakamálum

Nefnd sem Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði til að fjalla um hvernig tryggja megi sem best milliliðalausa sönnunarfærslu í meðferð sakamála hefur skilað áliti sínu til ráðherra. Leggur hún til að komið verði á fót millidómstigi þar sem eingöngu verði leyst úr sakamálum og þar fari fram sönnunarfærsla á nýjan leik.
Skýrsla með áliti nefndar um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum
Skýrsla með áliti nefndar um milliliðalausa sönnunarfærslu í sakamálum.

Nefnd sem Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra skipaði 30. nóvember 2007 til að fjalla um hvernig tryggja megi sem best milliliðalausa sönnunarfærslu í meðferð sakamála hefur skilað áliti sínu til ráðherra. Leggur hún til að komið verði á fót millidómstigi þar sem eingöngu verði leyst úr sakamálum og þar fari fram sönnunarfærsla á nýjan leik. Til dómstólsins verði áfrýjað þeim sakamálum sem nú sæta áfrýjun til Hæstaréttar. Leggur nefndin til að hið nýja millidómstig beri heitið Landsyfirréttur. Björn Bjarnason kynnti álit nefndarinnar í ávarpi sínu á hátíðarmálþingi lagadeildar Háskóla Íslands í dag.

Í tillögum nefndarinnar kemur fram að málum yrði skotið frá hinu nýja millidómstigi til Hæstaréttar á grundvelli áfrýjunarleyfis en eftirleiðis fjalli Hæstiréttur einungis um lagaatriði og ákvörðun refsingar. Hins vegar verði ekki unnt að endurskoða niðurstöðu millidómstigs um mat á sönnun og sönnunargildi munnlegra framburða. Þá verði öllum ágreiningsmálum varðandi réttarfar og rannsóknaraðgerðir í héraðsdómi skotið til millidómstigsins með kæru.

Nefndin leggur til að við dómstólinn starfi að lágmarki sex dómarar auk annars starfsfólks og að dómstóllinn starfi í tveimur þriggja manna deildum. Þá verði almennt fallið frá fjölskipuðum dómi í héraði. Mál fyrir dóminum flytji ríkissaksóknari og saksóknarar við embætti hans, og hæstaréttarlögmenn.

Nefndin var skipuð þeim Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, sem jafnframt var formaður, Ragnheiði Harðardóttur, þá vararíkissaksóknara, nú settum dómara við héraðsdóm Reykjavíkur, Símoni Sigvaldasyni, dómara við héraðsdóm Reykjavíkur og formanni Dómstólaráðs og Sveini Andra Sveinssyni hæstaréttarlögmanni. Ritari nefndarinnar var Gunnar Narfi Gunnarsson, lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

Sjá skýrslu nefndarinnar hér. (Pdf-skjal)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum