Fréttir

Einn-einn-tveir dagurinn haldinn í þrettánda sinn

11.2.2017

  • Fjölmörg börn fengu verðlaun í eldvarnargetraun sem afhent voru í dag.
    Fjölmörg börn fengu verðlaun í eldvarnargetraun sem afhent voru í dag.

Einn-einn-tveir dagurinn var haldinn hátíðlegur í 13. sinn í dag og var dagskrá fjölbreytt og sýnd margs konar tæki og búnaður björgunar- og viðbragðsaðila við Hörpuna í Reykjavík. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flutti ávarp við athöfn þar sem afhent voru verðlaun fyrir eldvarnargetraun og skyndihjálparmaður Rauða krossins var útnefndur sem er Unnur Lísa Schram.

Viðbragðsaðilar sýndu tæki sín og tól á Hörputorgi, svo sem lögreglubíla og mótorhjól, slökkviliðsbíla og sérútbúna bíla til ýmiss verkefna og varðskipið Þór og Sæbjörg, slysavarnaskóli sjómanna, voru opin gestum. Þá björguðu Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landhelgisgæsla Íslands forseta Íslands úr Reykjavíkurhöfn.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra flutti ávarp á 1-1-2 deginum.

Í ávarpi sínu sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra að neyðarnúmerið 1-1-2 hefði verið við lýði í rúma tvo áratugi en áður hefðu hinir mörgu viðbragðsaðilar um landið haft hver sitt númer. Hún sagði gott til þess að vita að hjá Neyðarlínunni starfaði sérhæft fólk sem á augabragði gæti kallað út viðeigandi hjálp þegar eitthvað bjátaði á og leiðbeint um fyrstu viðbrögð. Þannig væri 1-1-2- sannkölluð líflína. Ráðherra sagði að í könnun á síðasta ári hefðu yfir 97% svarenda sagst þekkja númerið, um 93% voru ánægð með Neyðarlínuna og 83% voru ánægð með hvernig leyst var úr erindi þeirra. Í lok máls síns vakti hún athygli á þeirri tækniþróun og framförum sem orðið hefðu í fjarskiptamálum landsmanna sem þýddu að unnt væri að ná víðar um landið og með meira öryggi.

Margir samstarfsaðilar

Þeir sem standa að 112-deginum 2017 eru: Neyðarlínan 112, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn á Íslandi, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Mannvirkjastofnun, Landspítali, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Ríkislögreglustjórinn, Embætti landlæknis, Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Barnaverndarstofa, Landhelgisgæsla Íslands, Vegagerðin og samstarfsaðilar um allt land.

Margir vildu skoða mótorhjól lögreglunnar.

Til baka Senda grein