Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræða viðbrögð við COVID-19

Viðbrögð Atlantshafsbandalagsins við COVID-19 faraldrinum voru aðalefni fundar utanríkisráðherra þess sem fór fram í dag. Fundurinn var haldinn í gegnum fjarfundabúnað og er það í fyrsta sinn í 70 ára sögu bandalagsins sem fundað er með þessum hætti. Fundurinn var einnig sögulegur þar sem Norður-Makedónía tók nú þátt í fyrsta sinn sem fullgilt bandalagsríki. Aðild landsins gekk í gildi 27. mars síðastliðinn og er Norður-Makedónía þrítugasta aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.

Stuðningur við neyðaraðgerðir

Ráðherrarnir ræddu hvernig bandalagið geti frekar stutt við samhæfingu og aðstoð vegna neyðarviðbragða við faraldrinum. Ýmis bandalagsríki hafa veitt hvort öðru neyðaraðstoð og m.a. nýtt til þess viðbúnað og sameiginlega flutningsgetu sem bandalagsríki búa yfir. Þá hefur liðsafli ýmissa ríkja stutt við borgaraleg neyðarviðbrögð, meðal annars m.a. með uppsetningu á hersjúkrahúsum og við landamæragæslu.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að það hafi verið gagnlegt að bera saman bækur í hópi bandalagsríkja og ræða þær áskoranir sem ríki heims standi nú frammi fyrir. „Ég fagna því að það kom fram ríkur vilji til að gera enn betur í að virkja þann viðbúnað og getu sem Atlantshafsbandalagið býr yfir við neyðaraðstæður eins og nú ríkja“ segir Guðlaugur. Hann segir ríkin sammála um að við aðstæður sem þessar þurfi bandalagið einnig að hafa viðnámsþrótt til að sinna áfram kjarnaverkefnum sínum á sviði sameiginlegra varna.

Þátttaka bandalagsins í baráttunni gegn hryðjuverkum

Ráðherrarnir ræddu einnig þátttöku bandalagsins í baráttunni gegn hryðjuverkum og tóku ákvörðun um að það taki að sér hluta þeirrar þjálfunar sem fjölþjóðaliðið gegn ISIS hefur sinnt fram til þessa í Írak. Þeir ræddu hvort efla megi stuðning við samstarfsríki bandalagsins í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, auk þess að ræða ástand mála í Afganistan.
Þá var ýtt úr vör vinnu við skoðun á því hvernig styrkja megi pólitískt samstarf innan Atlantshafsbandalagsins en ákvörðun þess efnis var tekin á leiðtogafundi bandalagsins í desember síðastliðnum. Skipaður hefur verið vinnuhópur utanaðkomandi einstaklinga sem verða Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra bandalagsins til ráðgjafar. Tillögur þessa hóps um umbætur verða lagðar fyrir næsta leiðtogafund á árinu 2021.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum