Hoppa yfir valmynd
14. mars 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

„Ósjálfbær neysla okkar hefur alvarleg áhrif á umhverfi og loftslag“ – ráðherra ávarpaði Umhverfisþing SÞ

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði Umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna í Naíróbí í Kenýa í dag. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í dag Umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd. Neysla, sóun, náttúruvernd og barátta gegn plastmengun var meðal þess sem ráherra lagði áherslu á.

„Ósjálfbær neysla okkar hefur farið úr böndunum, með skaðlegum áhrifum á umhverfið og loftslagið,“ sagði Guðmundur Ingi og benti á þá gríðarlegu sóun á matvælum sem ætti sér stað í heiminum – á heimsvísu væri einum þriðju hluta matvæla hent. Ekki einungis væri stórum hluta matarins síðan pakkað í plastumbúðir, með tilheyrandi skaðlegum umhverfisáhrifum, heldur gætu matvælin sjálf nú bókstaflega innihaldið plast.

Fram kom í máli ráðherra að Ísland legði ríka áherslu á að takast á við plastvandann í heiminum, meðal annars undir formennsku sinni í Norðurskautsráðinu, sem hefst síðar á árinu. Ísland styddi af fullum krafti alþjóðlegar aðgerðir varðandi plastvandann, þar með talið ályktun sem liggur fyrir Umhverfisþinginu um ferli til að ná á alþjóðavísu utan um plast í hafi og örplast. Vonandi gæti það í framtíðinni þróast yfir í lagalega bindandi samning.

Guðmundur Ingi benti á að góðu fréttirnar væru að mörg tækifæri og lausnir væru fyrir hendi. Sá úrgangur sem til félli fæli til dæmis í sér verðmæti og mikilvægt að sóa þeim ekki heldur koma þeim aftur inn í hringrásina og nota þau þannig aftur og aftur.

Ráðherra undirstrikaði að á næsta ári myndi alþjóðasamfélagið semja um ný markmið varðandi líffræðilegan fjölbreytileika í heiminum sem taka myndu gildi árið 2030. Áríðandi væri að leggja áherslu á vernd búsvæða, takast á við ágengar framandi tegundir og að endurheimta skóga, votlendi og önnur mikilvæg vistkerfi. Einnig þyrfti að hafa í huga að markmið vegna mismunandi áskorana í umhverfismálum taki til aðgerða sem nýtast við sameiginlega úrlausn þeirra þannig að samlegðaráhrif náist.

„Íslenska ríkisstjórnin hefur haft slíka nálgun til grundvallar í aðgerðaáætlun sinni í loftslagsmálum. Einn af meginþáttum áætlunarinnar er endurheimt skóga og votlendis. Með þessu vinnum við samtímis gegn eyðimerkurmyndum og loftslagsbreytingum, um leið og við aukum líffræðilegan fjölbreytileika,“ sagði hann.

Fram kom í máli Guðmundar Inga að íslenska ríkisstjórnin leggi áherslu á náttúruvernd og undirbúi nú stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands sem næði meðal annars yfir stór og víðáttumikil víðerni. Hann benti á að þjóðgarðurinn yrði þá langstærsti þjóðgarður Evrópu.

Ráðherra hefur setið Umhverfisþingið síðan á þriðjudag og meðal annars tekið þátt í pallborði um nýja skýrslu Umhverfisstofnunar SÞ og fleiri sem fjallar um breytingar á lífríki og mannlífi á Norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga.

Auk þess hefur Guðmundur Ingi m.a. átt tvíhliða fundi með Joyce Msuya, starfandi framkvæmdastjóra Umhverfisstofnunar SÞ, Carlos Manuel Rodriguez, umhverfisráðherra Kosta Ríka og fleirum. Að frumkvæði Afríkuskrifstofu Umhverfisstofnunar SÞ fór einnig fram fundur um landgræðslumál og samstarf Íslands við stofnunina.

Ávarp Guðmundar Inga á Umhverfisþingi SÞ

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum