Hoppa yfir valmynd
11. febrúar 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Kristín Lena skipuð forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar

Kristín Lena Þorvaldsdóttir hefur verið skipuð í embætti forstöðumanns Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Stofnunin sinnir meðal annars túlkaþjónustu á milli íslensks táknmáls og íslensku, rannsóknum á íslensku táknmáli og kennslu íslensks táknmáls og námsefnisgerð. Hjá Samskiptamiðstöðinni starfa rúmlega 30 starfsmenn að því að efla þjónustu við táknmálstalandi fólk sem víðast í samfélaginu.

Kristín er menntaður málfræðingur og lauk M.A. prófi í íslenskri málfræði með áherslu á íslenskt táknmál frá Háskóla Íslands árið 2011. Kristín hefur starfað hjá Samskiptamiðstöðinni sem sviðsstjóri táknmálssviðs, verkefnastjóri og túlkur. Hún var áður aðjunkt við Háskóla Íslands og sinnti þar kennslu og rannsóknum í táknmálsfræði og táknmálstúlkun.

„Það er ánægjulegt að tilkynna um þessa ráðningu í dag, á degi íslenska táknmálsins. Samskiptamiðstöðin gegnir lykilhlutverki fyrir döff-samfélagið hér á Íslandi og starfsfólk hennar hefur lyft grettistaki fyrir íslenskt táknmál og réttindabaráttu táknmálstalandi fólks,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

„Ég þakka það mikla traust sem mér er sýnt að fá að stýra þessari mikilvægu stofnun sem Samskiptamiðstöð er. Hún er málstöð íslenska táknmálsins og málsamfélags döff á Íslandi og mér er sannur heiður að fá að taka við stjórninni þá þessum hátíðisdegi, degi íslenska táknmálsins,“ sagði Kristín Lena Þorvaldsdóttir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum