Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2012 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp í samsæti til heiðurs Karli Sigurbjörnssyni biskupi

 

Það er við hæfi að halda þessa þakkarstund til heiðurs biskupshjónunum, Karli Sigurbjörnssyni og Kristínu Guðjónsdóttur hér í Þjóðmenningarhúsinu. Íslensk menning og Þjóðkirkjan eru samofin í fortíð og samtíð og mun svo verða á ókomnum árum. Saman hafa biskupshjónin haldið merki íslenskrar menningar hátt á loft, innan lands sem utan. Fyrir það ber að þakka.

Til þessarar samverustundar buðum við – Innanríkisráðuneytið, ráðuneyti kirkjumála –börnum þeirra hjóna og nánasta samstarfsfólki biskups. Biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, vil ég bjóða sérstaklega velkomna svo og vígslubiskupa og prófasta í Reykjavíkurprófastsdæmi.

Karl Sigurbjörnsson á það sannarlega skilið að vera vel kvaddur og honum þakkað af hálfu stjórnvalda fyrir starf og framlag sem biskup Íslands og það er mér mikið ánægjuefni að sjá ykkur öll hér í dag.

Karl Sigurbjörnsson biskup var einlægur og heill í þjónustu sinni sem biskup Íslands og vann margt afburða vel, einkum í boðun sinni og áherslum um þjónandi kirkjustarf. Mér þótti alltaf aðdáunarvert hve víðsýnn og velviljaður Karl var gagnvart öðrum trúfélögum. Þar sýndi hann mikla visku og styrk.

Reyndar sýndi Karl það margoft að hann er glöggskyggn og hugsjónaríkur maður. Hann hélt vel áttum í hillingum gróðærisins, andmælti yfirlæti, misskiptingu og varasömum viðmiðunum og mammonsvaldi og hlaut þá oft bágt fyrir hjá þeim sem þótti að sér vegið.

Kirkju- og safnaðarstarf efldist verulega í embættistíð Karls Sigurbjörnssonar. Kreppan kom þó illa við þjóðkirkjuna bæði sem félagslega hreyfingu og stofnun og dapurleg mál sem sem við öll þekkjum svo og innri vandkvæði, juku á raunirnar. Árásargjarnir menn neyttu færis að vega sem grimmilegast að kirkjunni og varð um margt vel ágengt við að rjúfa samstöðu kirkju og þjóðar.

Þegar við bættist að lögvarin kjör kirkjunnar voru ótæpilega skert af stjórnvöldum, kreppti enn frekar að og innri stoðir kirkjustarfsins veiktust óhjákvæmilega við uppsögn starfsmanna svo að kirkjan gat ekki sinnt sóknarfólki og skjólstæðingum sínum, eins og hún hefði kosið, einmitt þegar mest var þörf á því.

Við þetta allt þurfti Karl sem biskup Íslands að glíma og varð auðvitað þreyttur á fangbrögðunum og fór því af velli fyrr en skyldi.

En af vellinum fer hann með sæmd og þannig mun sagan dæma hann og verk hans. Ég vænti þess að Karl Sigurbjörnsson muni á komandi tíð – sem fyrr – leggja kirkju sinni og þjóðlífi dýrmætt lið með vitnisburði sínum og verkum.

Mig langar til að segja ykkur að lengi hefur verið einhver ljúfur strengur á milli okkar Karls – strengur af því tagi sem aðeins er ofinn á vissu skeiði ævinnar. Þótt við höfum ekki hist mjög oft um dagana, þá gleymir hvorugur því, hygg ég, þegar við vorum sessunautar í Þrúðvangi einn vetur á menntaskólaárum okkar. Þetta var í 4. bekk Mennataskólans í Reykjavík. Þá fékk ég að kynnast góðum dreng.

Og þessi góðmennska og hlýja finnst mér birtast vel og fallega í þessum óði Karls biskups til lífsins og náttúrunnar, gróðursins; sumarblómans og guðdómsins:

Nú skrúða grænum skrýðist fold
og skæru augun ljóma
er fagna blómin frelsi' úr mold
og frosts og vetrar dróma.
Nú barna raddir blíðar tjá
að birtan sigrað hefur
og allt í náð umvefur.

Í laufi fuglinn, lamb í hjörð
og lóa frjáls í heiði
þá lofgjörð inna lífs sem jörð
á löngum vetri þreyði.
Af gleði óma götur, torg
og gleði birtir sanna
öll önn og iðja manna.

Þú Guð, sem sumar gefur jörð
og gleði barna þinna,
gef allri þinni eignarhjörð
þá elsku' og gleði' að finna
og lúta þér í lotning, trú,
að lífi öllu hlúa,
sem systkin saman búa.

Eftirminnileg er mér predikun Karls í Dómkirkjunni í Reykjavík á sjómannadaginn í fyrra. Mér er hún einkum eftirminnileg fyrir tvennt. Vísdóminn sem þar var að finna og síðan það af hve mikilli virðingu og hlýju hann talaði um tengdaföður sinn. Biskup rifjaði upp samtal sem hann hafði átt við Guðjón tengdaföður sinn, sem verið hafði sjómaður. Fræddi hann tengdason sinn um hættur hafsins úti fyrir sjávarþorpinu þar sem hann bjó. Þar voru ótal sker. „Þekkturðu þau öll," spurði tengdasonurinn. „Nei, en ég þekkti leiðina á milli þeirra!"
Þetta þótti mér skemmtilegt svar með djúpa merkingu. Vissulega eru það ekki bara hættur sem við þurfum að þekkja heldur líka þær leiðir sem vel hafa gefist!

Karl Sigurbjörnsson, biskup, hefur í lífi sínu og með lífi sínu lagt sig fram um að stýra samfélagi okkar á milli skerjanna. Ótal sker og boðaföll hafa verið á vegferð okkar Íslendinga á undanförnum erfiðleikaárum í þjóðlífinu.

En hér erum við samt og horfum móti bjartari tíð og það þökkum við mönnum eins og Karli Sigubjörnssyni.

Heill þér og þinni góðu eiginkonu og fjölskyldu ykkar. Blessun og gæfa fylgi þér og ykkur öllum á komandi tíð.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum