Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2015 Dómsmálaráðuneytið

Lögð til skipan eftirlitsnefndar vegna kvartana og kærumála vegna starfa lögreglu

Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í ársbyrjun um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu skilaði í dag ráðherra niðurstöðu sinni. Leggur nefndin til að ráðherra skipi þriggja manna eftirlitsnefnd með störfum lögreglu sem hafi það verkefni að taka við erindum frá borgurunum, yfirfara þau og greina hvort um sé að ræða kæru um refsiverða háttsemi eða kvörtun er lúti að starfsaðferðum lögreglu, og komi erindum í viðeigandi farveg. Þá lagði nefndin einnig fram drög að breytingum á lögum sem nauðsynlegar eru með hliðsjón af þessum tillögum.

Ólöf Nordal innanríksiráðherra sagði þegar skýrslan var kynnt fyrir henni að sér litist mjög vel á tillögurnar og að þegar yrði hafinn undirbúningur að því að hrinda þeim í framkvæmd. Sagði hún mikilvægt að mál sem þessi hefðu öruggan farveg og að borgararnir hefðu vissu fyrir því að á þá væri hlustað.

Í nefndinni áttu sæti þau Sigurður Tómas Magnússon prófessor, Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, Daði Kristjánsson saksóknari, Páll Heiðar Halldórsson lögfræðingur og Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari, sem jafnframt var skipuð formaður nefndarinnar. Með nefndinni starfaði Margrét Kristín Pálsdóttir, lögfræðingur í innanríkisráðuneytinu.

Í skýrslunni er leitast á við að gera grein fyrir hvernig eftirliti með störfum lögreglu er háttað hér á landi og fyrirkomulagi málsmeðferðar þegar borgararnir telja að lögregla hafi ekki fylgt vönduðum starfsháttum. Reifaðar eru lagareglur sem um þetta efni gilda og gerð grein fyrir framkvæmdinni á grundvelli upplýsinga sem nefndin aflaði sér. Þá aflaði nefndin sér einnig upplýsinga um tilhögun mála á öðrum Norðurlöndum.

Við mat á núverandi fyrirkomulagi eftirlits með störfum lögreglu var litið til ábendinga umboðsmanns Alþingis og ríkissaksóknara. Var jafnframt litið til þess hvort málsmeðferðin fullnægi skuldbindingum sem íslenska ríkið er bundið af samkvæmt mannréttindasáttmálum.

Í niðurstöðum nefndarinnar er bent á að gera verði skýran greinarmun annars vegar á meðferð kærumála vegna meintra refsiverðra brota starfsmanna lögreglu og hins vegar á meðferð mála er lúta að kvörtunum vegna starfshátta lögreglu ýmist vegna aðferða einstakra lögreglumanna eða almennra starfshátta. Þá er í skýrslunni yfirlit yfir kærur á hendur lögreglu árin 2005 til 2014 og kemur þar fram að fjöldi mála er frá 17 og upp í 36 á ári og er gerð grein fyrir afdrifum málanna, þ.e. hvort þeim var vísað frá, þau rannsökuð og hvort ákært var eða mál fellt niður, og er þar byggt á ársskýrslum ríkissaksóknara.

Helstu tillögur nefndarinnar eru:

  • Ráðherra skipi þriggja manna stjórnsýslunefnd, eftirlitsnefnd með störfum lögreglu, sem hafi það verkefni að taka við erindum frá borgurunum, yfirfara þau og greina hvort um sé að ræða kæru um refsiverða háttsemi eða kvörtun er lúti að starfsaðferðum lögreglu.
  • Nefndin komi erindum í viðeigandi farveg, hvort heldur sem er hjá héraðssaksóknara/ríkissaksóknara, viðkomandi lögreglustjóra eða ríkislögreglustjóra. Þessum embættum beri jafnframt að tilkynna nefndinni um kærur og kvartanir sem berast embættunum beint frá borgurum og tilkynna nefndinni um niðurstöðu mála þegar þær liggja fyrir. Með því verði tryggt að erindi borgarans verði tekið til viðeigandi skoðunar og meðferðar. Ekki er gert ráð fyrir því að nefndin taki beinan þátt í meðferð máls sem hún beinir annað. Hins vegar geti hún komið á framfæri athugasemdum við málsmeðferðina og niðurstöðu málsins, ef tilefni þykir til.
  • Nefndin verði skipuð þremur nefndarmönnum, einum tilnefndum af Lögmannafélagi Íslands, öðrum af Mannréttindaskrifstofu Íslands en sá þriðji verði skipaður af innanríkisráðherra og verði hann jafnframt formaður nefndarinnar.

Nefndin vann einnig drög að breytingum á VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996 og reglum um meðferð mála vegna kæra og kvartana á hendur lögreglu með hliðsjón af ofangreindum tillögum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum