Hoppa yfir valmynd
5. október 2015 Forsætisráðuneytið

Unnið að fullgildingu sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Innan stjórnarráðsins hefur hefur verið unnið að því undanfarin misseri að undirbúa fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. þingsályktun Alþingis þar að lútandi. Samkvæmt þingsályktuninni hefur innanríkisráðuneytið umsjón með verkefninu en einstakir verkþættir eru hins vegar á ábyrgð mismunandi ráðuneyta eftir því sem við á. Samráðsvettvangur Stjórnarráðsins með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og hagsmunaaðila hefur annast undirbúning málsins.

Í júní síðastliðnum birti ráðuneytið á vefsíðu sinni upplýsingar um framvindu og stöðu verkefnisins. Með fréttinni var birt yfirlitstafla sem tilgreindi stöðu allra verkþátta, hverjum þeirra væri lokið og hvaða verkefni væru enn í vinnslu. Í fréttinni var jafnframt upplýst um samþykkt Alþingis á breytingu á lögræðislögum en tiltekin breyting þeirra laga er einn liður í þessum undirbúningi.

Samkvæmt yfirlitstöflunni má ráða að viðfangsefnum á verksviði þriggja ráðuneyta sé enn ólokið svo fullgilda megi samninginn. Viðfangsefnin eru eftir ábyrgðarsviði ráðherra:

Á verksviði innanríkisráðherra:

  • Breytt hugtakanotkun (bíður framlagningar á Alþingi)
  • Framkvæmd og eftirlit innanlands, sbr. 33. gr. samningsins

Á verksviði félagsmálaráðherra:

  • Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar, sbr. 19. gr. samningsins
  • Virðing fyrir heimili og fjölskyldu, sbr. 23. gr. samningsins
  • Hæfing og endurhæfing, sbr. 26. gr. samningsins
  • Vinna og starf, sbr. 27. gr. samningsins

Á verksviði heilbrigðisráðherra:

  • Að fatlað fólk, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra, sbr. b- og c-lið, 1. mgr. 23. gr. samningsins

Á næsta fundi verkefnisstjórnarinnar verður kynnt uppfærð verkefnisáætlun sem skilgreinir nánar hvernig umræddum verkþáttum verður hrint í framkvæmd af viðkomandi ráðuneytum, vinnu við gerð kostnaðarmats og fleira en áætlunin verður jafnframt kynnt á vef innanríkisráðuneytisins.

Þá er rétt að geta þess að á næstu dögum mun innanríkisráðherra leggja frumvarp fyrir Alþingi sem breytir hugtakanotkun í ýmsum lögum. Er það einnig liður í því að undirbúa fullgildingu sáttmálans þótt breytingarnar snúi ekki að einstökum ákvæðum hans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum