Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2015 Dómsmálaráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra fjallaði m.a. um stjórnmál, orðræðuna og Hólaprent í ræðu á Hólahátíð

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti hátíðarræðu á Hólahátíð sem lauk síðdegis í dag. Ráðherra ræddi meðal annars um um Hólastað og Hólaprentið og áhrif þess, gerði stjórnmálin og orðræðuna að umtalsefni, hversu óvægin hún væri á köflum. Hún sagði reyna á þolgæði í efnahagsmálum þjóðarinnar nú þegar bjartari tímar væru framundan og nú skipti miklu máli að halda áfram að reisa við efnahagslífið og standa gegn þenslu og auknum ríkisútgjöldum.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ræðu á Hólahátíð. Hér er hún með dóttur sinni, Dóru, við kirkjuna ásamt biskupi Íslands, Agnesi Sigurðardóttur.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ræðu á Hólahátíð. Hér er hún með dóttur sinni, Dóru, við kirkjuna ásamt biskupi Íslands, Agnesi Sigurðardóttur.

Ólöf Nordal sagði það hafa verið byltingu að fá til landsins prentsmiðju árið 1530 og hvernig biskupar hefðu staðið fyrir útgáfu- og menningarstarfi. ,,Hvað er það annað en þor og framsýni að taka strax í þjónustu þá tækni sem var fjölmiðlun þess tíma, og sem leiddi til þess að nánast allur almenningur hafði aðgang að því fjölbreytta efni sem héðan kom?" sagði hún og sagði að við værum nú stödd í annars konar byltingu, byltingu internetsins og upplýsingamiðlunar. Nýjar aðferðir á öllum sviðum gætu aukið kynslóðabilið og leitt til minni skilnings milli kynslóða og ráðherra sagði síðan: ,,Það er ögrandi að takast á við þá ótal möguleika sem þessi tækni færir fram og fyrir okkur sem eldri erum, að skilja til þrautar hvaða möguleikar þarna eru á ferðinni. Þessar nýju aðferðir eru fagnaðarefni og verkefni okkar er að þær leiði til þess að ungir og aldnir nái betur saman en ekki öfugt. Við viljum skilja unga fólkið og aðferðir þess.“

Um stjórnmálin sagði ráðherra óhætt að segja að mikil hreyfing væri á fylgi flokka um þessar mundir, kjósendur væru hvikari en kannski fyrr. Hún sagði gamla sem nýja stjórnmálaflokka verða að leggja sig fram við að setja fram skýra stefnu um áherslur sínar til lengri tíma og tala skýrt fyrir þeim: ,,Og nú kallar fólk eftir nýjum áherslum. Flokkar bjóða sig fram af því að þeir hafa ólíkar hugmyndir um hvernig helst á að stjórna landinu. Hvaða leiðir séu farsælastar fyrir þjóðarskútuna. 

Nú sjáum við fram á bjartari tíma í efnahagsmálum þjóðarinnar og þá reynir á þolgæði okkar. Að hafa úthald til að bíða efir því að kornið safnist í hlöðurnar. Það skiptir öllu máli fyrir okkur Íslendinga á þessum tímapunkti að rasa ekki um ráð fram, heldur ljúka við að reisa efnahagslífið við eftir þær ágjafir sem við urðum fyrir í bankakreppunni. Að hafa þolinmæði og staðfestu til að taka á málum, standa gegn þenslu og auknum ríkisgjöldum en verja þess í stað þeim fjármunum sem til skiptanna eru til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og búa í haginn fyrir uppbyggingu komandi ára.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum