Hoppa yfir valmynd
2. júní 2015 Innviðaráðuneytið

Vel sótt námskeið fyrir vefstjóra opinberra vefja

Tæplega hundrað manns sóttu tvö námskeið fyrir vefstjóra og aðra sem sjá um vefi opinberra stofnana og sveitarfélaga í gær. Námskeiðin voru haldin á vegum innanríkisisráðuneytisins í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Opna Háskólann í HR í tilefni af því að á haustmánuðum verður á ný gerð könnun á stöðu opinberra vefja. Þá verður öryggi opinberra vefja kannað í fyrsta sinn og var kastljósinu því sérstaklega beint að þeim þætti.

Námskeið fyrir vefstjóra opinberra vefja var vel sótt.
Námskeið fyrir vefstjóra opinberra vefja var vel sótt.

Á námskeiðunum var annars vegar farið yfir stöðu opinberra vefja og kennt hvernig gera má enn betur með einföldum aðferðum. Horft var til þeirra þátta sem skoðaðir verða í könnuninni í haust, s.s. innihalds, nytsemi, aðgengis og þjónustu. Þá var sjónum einnig beint að lýðræðisvirkni, opnum gögnum og rafrænni málsmeðferð. 

Á sérstöku námskeiði efir hádegi var svo farið yfir helstu ógnir er steðja að öryggi vefja, farið yfir algengar tegundir vefárása og áhættuþátta er snúa að rekstri vefja. Áhersla var lögð á að kynna þær kröfur sem vefstjórar geta gert til þjónustuaðila, svo sem varðandi hýsingu og hugbúnað.

Á báðum námskeiðunum var Vefhandbókin höfð til grundvallar, en það er rafræn handbók um opinbera vefi sem gagnast öllum er fást við vefumsjón af einhverjum toga. Vefhandbókin er vistuð á vefnum ut.is. Þar er einnig að finna ítarlegar upplýsingar um könnunina Hvað er spunnið í opinbera vefi sem gerð hefur verið annað hvert ár frá árinu 2005. Í haust verða opinberir vefir á Íslandi því kannaðir í sjötta sinn en niðurstöðurnar eru mikilvægt tæki til að þróa og fylgjast með þróun opinberra vefja með tilliti til þeirra þátta sem mældir eru.

Námskeið fyrir vefstjóra opinberra vefja var vel sótt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum