Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2015 Dómsmálaráðuneytið

Þjónustusamningur við Íslenska ættleiðingu endurnýjaður og löggilding veitt til að annast milligöngu um ættleiðingar frá Búlgaríu

Innanríkisráðuneytið og Íslensk ættleiðing hafa endurnýjað þjónustusamning sem á að gilda til 31. desember 2017. Samningurinn kveður á um að Íslensk ættleiðing, sem hefur löggildingu innanríkisráðherra til að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá tilteknum erlendum ríkjum, veiti skilgreinda þjónustu sem því tengist. Í dag veitti ráðherra Íslenskri ættleiðingu jafnframt löggildingu til þess að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá Búlgaríu, en löggildingin er veitt til þriggja ára. 

Frá undirrituninni í dag.
Frá undirrituninni í dag.

Í þjónustusamningnum við Íslenska ættleiðingu er vísað í heimildir er varða ættleiðingar í lögum og reglugerðum og að starfsemi félagsins skuli vera í samræmi við þau. Kveðið er á um ábyrgð hvors aðila um sig í samningnum, að ráðuneytið leggi til fjármagn og að Íslensk ættleiðing skuli tryggja að farið sé að markmiðum samningsins og veita þá þjónustu sem kveðið er á um. Meðal verkefna Íslenskrar ættleiðingar er að annast meðferð umsókna kjörforeldra um ættleiðingu, samskipti við upprunaríki, sýslumann og kjörforeldra, skipuleggja námskeið til undirbúnings ættleiðingar, veita ráðgjöf eftir ættleiðingu og senda eftirfylgniskýrslur til upprunalands um stöðu barns eftir komu þess til landsins.

Ráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd samningsins og annast eftirlit, bæði fjárhagslegt og faglegt, þ.m.t. með gæðum starfsins, svo sem því að starfsemi Íslenskrar ættleiðingar samræmist efnislega alþjóðlegum kröfum um ættleiðingar og ættleiðingafélög.  Fjárveitingar til verkefna samningsins eru ákveðnar með fjárlögum hverju sinni.

Samkvæmt samningnum skal Íslensk ættleiðing með reglulegum þjónustukönnunum meðal félagsmanna mæla sérstaklega faglegt starf og gæði þeirrar þjónustu sem veitt er af hálfu félagsins, þ.á m. ráðgjöf og þjónustu félagsins í heild sinni í kjölfar þess að ættleiðing hefur farið fram. Þá skal Íslensk ættleiðing með þjónustukönnun mæla gagnsemi og gæði námskeiða á vegum félagsins.

Frá undirritun þjónustusamnings við Íslenska ættleiðingu.











Frá vinstri: Hermann Sæmundsson skrifstofustjóri, Svanhildur Þorbjörnsdóttir lögfræðingur, Hörður Svavarsson, formaður Íslenskrar ættleiðingar, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum