Hoppa yfir valmynd
27. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til umsagnar

Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru nú til umsagnar hjá innanríkisráðuneytinu. Breytingarnar miða að því að gera lögin skilvirkari, m.a.  við að greina raunverulegan eiganda, útfærslu áreiðanleikakannana og skilgreiningu á millifærslu fjármuna. Unnt er að senda umsagnir á netfangið [email protected] til og með 8. apríl næstkomandi.

Í samræmi við helstu athugasemdir alþjóðlega framkvæmdahópsins FATF (Financial action task force) er lagt til að í lögunum, nr. 64/2006 með síðari breytingum, verði gerð ríkari krafa um áreiðanleikakannanir af hálfu tilkynningarskyldra aðila. Lagt er til að bætt verði við orðskýringu á hugtakinu millifærsla fjármuna (e. wire transfer) í samræmi við notkun hugtaksins hér á landi og skilgreiningu FATF á enska hugtakinu wire transfer. Þá er lagt til að færsla fjármuna með greiðslukortum falli utan gildissviðs laganna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Enn fremur er lagt til að tilkynningarskyldir aðilar beri kennsl á raunverulegan eiganda með fullnægjandi og réttmætum ráðstöfunum í öllum viðskiptum og að fjármálastofnanir hafi virkt eftirlit með því hvort viðskiptavinir séu í raun að koma fram í sínu eigin nafni eða fyrir hönd annars, sem og að tilkynningarskyldur aðili skilji eignarhald og stjórnskipulag viðskiptavina sem eru lögaðilar.

Loks er lagt til að eflt verði virkt eftirlit tilkynningarskyldra aðila með því hvort viðskiptamenn þeirra séu í raun að koma fram í sínu eigin nafni eða fyrir hönd annars. Tilkynningarskyldir aðilar skulu til þess afla fullnægjandi upplýsinga og grípa til réttmætra ráðstafana til að staðreyna þær.

Frumvarpið er samið á vegum innanríkisráðuneytisins að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið, Fjármálaeftirlitið, embætti sérstaks saksóknara og Samtök fjármálafyrirtækja.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum