Hoppa yfir valmynd
6. mars 2015 Innviðaráðuneytið

Innanríkisráðherra heimsótti Héraðsdóm Reykjavíkur og Þjóðskrá Íslands

Ólöf Nordal innanríkisráðherra heimsótti í vikunni Héraðsdóm Reykjavíkur og dómstólaráð í dómhúsinu við Lækjartorg í Reykjavík og Þjóðskrá Íslands við Borgartún. Forráðamenn þessara stofnana tóku á móti ráðherra og fylgdarliði og greindu frá helstu þáttum í starfsemi þeirra.

Innanrikisráðherra heimsótti Héraðsdóm Reykjavíkur í vikunni. Frá vinstri: Ragnhildur Hjaltadótir, Ingimundur Einarsson, Ólöf Nordal og Skúli Magnússon.
Innanrikisráðherra heimsótti Héraðsdóm Reykjavíkur í vikunni. Frá vinstri: Ragnhildur Hjaltadótir, Ingimundur Einarsson, Ólöf Nordal og Skúli Magnússon.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur hafði Ingimundur Einarsson dómstjóri orð fyrir sínu fólki en með honum var Friðrik Stefánsson mannauðs- og rekstrarstjóri. Símon Sigvaldason, formaður dómstólaráðs, og Ólöf Finnsdóttir framkvæmdastjóri sögðu frá helstu verkefnum ráðsins og Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, greindi frá ýmsum áherslum félagsins er varða dómstóla.

Frá heimsókn innanríkisráðherra í Héraðsdóm Reykjavíkur.Fram kom í máli Ingimundar Einarssonar að 50 stöðugildi eru við Héraðsdóm Reykjavíkur og er helmingur þeirra dómarar. Aðrir eru löglærðir aðstoðarmenn dómara, dómritarar og fleiri. Fjöldi nýrra mála hefur síðustu árin verið á bilinu 9.600 til 10.900 en dómstjórinn bendir á að málafjöldinn einn og sér segi lítið um umfangið þar sem málsmeðferðartíminn er mjög mislangur. Á síðustu árum hefur hann lengst í einkamálum úr 255 dögum í 355 daga árið 2013 og segir hann þau mörg hver umfangsmeiri og flóknari en áður þekktist.

Innanríkisráðherra heimsótti Þjóðskrá Íslands í vikunniÍ Þjóðskrá Íslands tóku Margrét Hauksdóttir forstjóri og helstu samstarfsmenn hennar á móti ráðherra ásamt tveimur stjórnarmönnum Þjóðskrár. Var farið um húsnæði Þjóðskrár og heilsað uppá starfsmenn og starfsemin síðan kynnt á fundi. Alls eru starfsmenn Þjóðskrár liðlega 100 og af þeim eru 17 á Akureyri. Meðal helstu verkefna Þjóðskrár er halda fasteignaskrá og þjóðskrá, hún ákveður brunabóta- og fasteignamat og annast rannsóknir á fasteignamarkaðinum. Stofnunin gefur út vegabréf, nafnskírteini, Íslykil og ýmis vottorð. Þjóðskrá Íslands leggur áherslu á rafræna stjórnsýslu og rekur meðal annars upplýsinga- og þjónustuveituna Ísland.is ásamt innskráningarþjónustu Ísland.is. Stofnunin sér einnig um rekstur starfs- og upplýsingakerfa fyrir sýslumenn og sveitarfélög.

Innanríkisráðherra heimsótti Þjóðskrá Íslands í vikunni

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum