Hoppa yfir valmynd
11. desember 2014 Innviðaráðuneytið

Færri ökumenn og farþegar slasast í umferðinni en fleiri hjólreiðamenn

Banaslysum og alvarlegum slysum ökumanna og farþega bifreiða fækkaði árin 2011-2013 en á sama tíma fjölgaði alvarlegum slysum meðal hjóreiðamanna. Árið 2011 slösuðust 24 hjólreiðamenn, 36 árið eftir og 77 á síðasta ári en enginn hjólreiðamaður lést. Auknar hjólreiðar eru meðal skýringa á fjölgun slasaðra hjólreiðamanna en skráning þessara slysa hefur einnig verið bætt.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í samantektum Vegagerðarinnar í þremur skýrslum sem fjalla um greiningu á banaslysum og slysum með alvarlegum meiðslum, greiningu á alvarlegum slysum og banaslysum annars vegar á gangandi vegfarendum og hins vegar hjólreiðamönnum. Í skýrslunum er byggt á grunngögnum sem Vegagerðin hefur fengið frá Samgöngustofu sem byggir sína slysaskráningu á lögregluskýrslum.

Fram kemur í greiningu Vegagerðarinnar á banaslysum og alvarlegum slysum að áhyggjurefni sé að fleiri óvarðir vegfarendur slasist, þ.e. gangandi og hjólandi. Aukin áhersla hafi verið lögð á vistvænar samgöngur sem hafi skilað sér í fleiri gangandi og hjólandi vegfarendum. Í skýrslunni segir meðal annars: ,,Krafan um aukinn hlut vistvænna ferðamáta í samfélaginu á líklega eftir að verða til þess að fleiri óvarðir vegfarendur verða í umferðinni og því er mikilvægt að fylgjast sérstaklega með þróun slysa þessa vegfarendahóps og leita leiða til þess að tryggja öryggi þeirra.“

Alls slösuðust 52 gangandi vegfarendur árin 2011-2013 og sjö létust. Í greiningunni á slysunum kemur meðal annars fram að algengast væri að gangandi fólk slasaðist þegar ekið væri á það á götu og næst algengast á bílastæði. Í fjórum tilfellum var hjólað á gangandi vegfaranda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum